Hagnaður Síldarvinnslunnar 5,3 milljarðar króna

Hagnaður Síldarvinnslunnar á síðasta ári nam 5,3 milljörðum kr. Rekstrartekjur ársins námu tæpum 25 milljörðum kr. og heildareignir í árslok stóðu í 72,5 milljörðum kr.

 

,,Ég er ánægður með árangur Síldarvinnslunnar á krefjandi ári. Reksturinn var traustur og fjárhagsstaða félagsins sterk," segir Gunnþór Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar í tilkynningu um afkomuna á vefsíðu félagsins.

"Síldarvinnslan er útflutningsfyrirtæki sem að starfar á alþjóðlegum mörkuðum og hafði Covid-19 heimsfaraldurinn áhrif á starfsemi félagsins árið 2020. Þurftum við að aðlaga veiðar, framleiðslu og sölu afurða að breyttum veruleika með lokunum landamæra og takmörkunum á ferðalögum víðsvegar um heiminn."

Þá segir Gunnþór að starfsfólk félagsins sýndi framúrskarandi aðlögunarhæfni og samstöðu á þessum erfiðu tímum. Ekki kom til lokunar í vinnslum eða röskunar á útgerð vegna áhrifa af Covid-19. Annað árið í röð veiddist engin loðna með tilheyrandi tekjutapi fyrir félagið.

"Áhersla Síldarvinnslunnar síðastliðinn áratug hefur verið að fjárfesta í bolfiskheimildum og efla þann hluta starfsemi félagsins. Með því hefur tekist að verja afkomu- og tekjugrundvöll félagsins þegar að sveiflur í uppsjávarheimildum gætir líkt og gerst hefur í tilfelli loðnunnar síðastliðinn tvö rekstrarár," segir Gunnþór.

Fram kemur í tilkynningunni að afli skipa samstæðunnar var 145 þúsund tonn. Fiskimjölsverksmiðjur félagsins tóku á móti 123 þúsund tonnum af hráefni. Fiskiðjuverin tóku á móti 51 þúsund tonnum af hráefni til vinnslu.

"Fjárfestingar í nýjum skipakosti og innviðum síðustu ára hafa skilað sér í aukinni hagkvæmni í rekstri. Á árinu 2020 staðfesti íslenskur sjávarútvegur mikilvægi sitt sem ein af grunnatvinnugreinum þjóðarinnar og undirstaða velferðar," segir Gunnþór.

"Við hjá Síldarvinnslunni erum stolt af okkar framlagi til íslenskrar verðmætasköpunnar. Fyrirhuguð er skráning á hlutabréfum Síldarvinnslunar í Kauphöll sem markar tímamót í starfsemi félagsins, eflir félagið og opnar fyrir fjárfestum. Nýafstaðin loðnuvertíð var vel heppnuð þó hún væri ekki stór í sögulegu samhengi. Veiðar og vinnsla gengu vel, allt var unnið til manneldis. Ljóst er að fjárfestingar síðustu ára í skipum og manneldisvinnslu hafi tryggt hámarks verðmætasköpun."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.