Hafnaraðstaða í Finnafirði 2025?

Framkvæmdastjóri þýska fyrirtækisins Bremenports spáir því að fyrsti vísir að hafnaraðstöðu í Finnafirði verði tilbúinn árið 2025. Fjárfestingasjóður í eigu Guggenheim fjölskyldunnar hefur sýnt áhuga á að taka þátt í verkefninu.

„Ég trúi að þarna verði komin höfn árið 2025 en við eigum eftir að sjá hvaða gerðar hún verður og hversu stór,“ segir Robert Howe, framkvæmdastjóri Bremensports, í nýlegri frétt staðarblaðsins Nordsee Zeitung.

Í frétt blaðsins kemur fram að tafir hafi orðið á verkefninu að undanförnu, annars vegar vegna þess að ný ríkisstjórn hafi þurft að komast inn í málið, hins vegar því ekki hafi verið búið að ganga frá samningum við nærsamfélagið. Miðað við tilkynningar Bremenports virðast þeir samningar í höfn.

Til að ganga frá lausum endum komu forsvarsmenn Bremenports hingað í þriggja daga fundaferð síðasta vor. Haft er eftir Howe að ekki sé teljandi andstaða við verkefnið á Íslandi en heimamenn vilji hins vegar sjá trúverðugar áætlanir sem þeir geti stutt við. Hann segir forsvarsmenn Bremenports vilja vinna verkefnið í sátt við heimamenn.

Ekki hægt að koma í veg fyrir að skipin sigli ef leiðin er fær

Í greininni er komið inn á að í umræðum um siglingaleið um Norðurskautið togist á áhyggjur af neikvæðum áhrifum af hlýnun jarðar gegn tækifærum. Sú siglingaleið styttir leiðina frá Asíu til Mið-Evrópu um eina 6000 kílómetra samanborið við Súesskurðinn. Í september sigldi flutningaskip frá danska skipafélaginu Maersk frá Suður-Kóreu og norður fyrir til Bremenhaven.

„Það er ekki hægt að koma í veg fyrir að skip sigli þessa leið. Þegar nýjar skipaleiðir verða til er þörf á innviðum,“ segir Howe. Nordsee Zeitung telur upp að til að styðja við leiðina þurfi að vera til staðar dráttarbátar, bátar landhelgisgæslu og björgunarbátar og þeir þurfi að eiga sína heimahöfn.

Aðaltilgangur Finnafjarðarhafnarinnar yrði hins vegar að vera umskipunarhöfn, þar sem skip sem farið hafa norður fyrir frá Asíu taka um borð eða landa vörum á móti skipum sem sigla frá Finnafirði til Vestur-Evrópu eða Norður-Ameríku. Finnafjarðarhöfnin gæti einnig nýst til umskipunar á efnum úr námavinnslu frá Grænlandi. Hugmyndir eru um að nota efni þaðan til að byggja hana upp.

Aðkoma Guggenheim

Formlegir þátttakendur í verkefninu nú eru auk Bremenports verkfræðistofan Efla og sveitarfélögin Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur. Íslenska ríkið hefur einnig stutt við málið. Von er á að fyrri hluta næsta árs verði hægt að ganga frá samningum við stóran fjárfesti sem fjármagni skipulagsferlið, sem Howe segist reikna með að taki 3-5 ár.

Í tilkynningu Bremenports frá í janúar 2017 er að finna setningu um að Guggenheim Capital Partners hafi lofast til að fjárfesta í þróunarfélagi hafnarinnar. Auk Guggenheim munu sveitarfélögin tvö eiga hlut í félaginu og Bremenports 50,1%.

Eins og nafnið ber með sér er félagið í eigu hinnar sterkefnuðu bandarísku Guggenheim fjölskyldu. Auður hennar byggðist upp á námavinnslu á ofanverðri 19. öld en hún hefur síðan getið sér orðs með framlögum til góðgerðarmála, einkum nútímalistar. Eignir í umsjá Guggenheim Capital Partners, sem er aðalfjárfestingafélag fjölskyldunnar, eru metnar á 310 milljarða dollara eða 38,5 billjónir íslenskra króna.

Framkvæmdastjóri félagsins er Mark Walter, sem í Bandaríkjunum er þekktur sem stjórnarformaður hafnaboltaliðsins Los Angeles Dodgers. Hann á það í félagi við nokkra aðra, þar á meðal körfuknattleiksmanninn fyrrverandi Magic Johnson.

Áætlað er að framkvæmdir í Finnafirði verði fjármagnaðar með sölu sérleyfa og þátttöku fjárfesta sem bera munu áhættuna. Í umræðum bæði á Íslandi og í Bremen, en Bremenports er alfarið í opinberri eigu, hefur verið varað við að opinberir aðilar beri ekki fjárhagslega áhættu. Í frétt Nordsee Zeitung segir að bæði ástralskt námavinnslufyrirtæki og fjárfestingasjóðir á vegum kínverska ríkisins hafi sýnt áhuga á að koma að verkefninu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.