Hafnar að Framsókn fari halloka í samstarfi

Oddviti Framsóknarflokks hafnar því að framboðið beri skarðan hlut frá borði þrátt fyrir að vera aðeins með formennsku í einn af fjórum fastanefndum samkvæmt meirihlutasamkomulagi flokksins við Sjálfstæðisflokkinn í nýju, sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi.

Samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar, sem væntanlega mun heita Múlaþing, var staðfest í gær. Flokkarnir fengu samanlagt sex fulltrúa af ellefu kjörna í sveitarstjórnina, Sjálfstæðisflokkurinn fjóra og Framsóknarflokkurinn tvo.

Samkvæmt meirihlutasamkomulagi fær Sjálfstæðisflokkurinn forsæti bæjarstjórn auk formennsku í byggðaráði og fjölskylduráði meðan Framsóknarflokkurinn fær formennsku í umhverfis og framkvæmdaráði.

Á móti kemur að Framsóknarflokkurinn fær tvo fulltrúa í ráðunum og verða flokkarnir því með jafn marga fulltrúa í ráðunum þremur, en sjö einstaklingar sitja í hverju þeirra.

Skipta með sér fulltrúum í ráðum

Oddvitar meirihlutans, þeir Stefán Bogi Sveinsson frá Framsóknarflokki og Gauti Jóhannesson frá Sjálfstæðisflokki, kynntu meirihlutasamkomulagið á fréttamannafundi í gær. Stefán Bogi hafnaði þar því að Framsóknarflokkurinn bæri skarðan hlut frá borði og vísaði þar meðal annars til fulltrúafjöldans.

„Það eru miklar breytingar á uppbyggingu nefnda og ráða. Við Framsóknarmenn lögðum mikla áherslu á skipulagsmálin og þau verkefni sem færu þar framundan í okkar kosningabaráttu. Því var það kappsmál að fá tækifæri til að leiða þá vinnu. Við erum líka ánægð að vera með tvo fulltrúa í ráðunum. Mestu skiptir þó að sameinast um málefnasamningin og tryggja gott samstarf,“ sagði hann.

Stefán Bogi verður formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs en Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki skipt sínum embættum á milli fulltrúa.

Minnihlutinn skipar í tvær heimastjórnir

Innan hins nýja sveitarfélags munu starfa fjórar heimastjórnir, ein fyrir hvert núverandi byggðarlaga. Í þeim verða þrír fulltrúar, tveir hafa þegar verið kosnir af íbúum en sveitarstjórn skipar þriðja fulltrúann. Sami háttur er með varamenn þannig að sveitarstjórn þarf að skipa alls átta fulltrúa.

Á fundinum í gær kom fram að minnihluti Austurlista, Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Miðflokks muni eiga fulltrúa í tveimur heimastjórnum og meirihlutinn í tveimur. Ekki var nánar tilgreint hvernig heimastjórnirnar skiptast milli framboða né hverjir sitja í þeim. Það skýrist á fyrsta fundi nýrrar sveitarstjórnar sem stefnt er á að verði í næstu viku.

„Í anda þess sem kemur fram í niðurlagi málefnasamningsins við viljum eiga gott samstarf við alla lista sem eiga fulltrúa í sveitarstjórn höfum við eftirlátið minnihlutanum sæti í tveimur heimastjórnum.“

„Fulltrúi sveitarstjórnar í heimastjórn ber þar ábyrgð fyrir hönd sveitarstjórnar allrar og það er mikilvægt að fólk líti þannig á að það sé sameiginlegt verkefni að sinna heimastjórnunum. Í okkar samtali hefur komið fram að ekki sé endilega skynsamt að fulltrúar taki sæti í heimastjórn sinnar heimabyggðar heldur verði til þekking og aukin tengsl milli svæða innan sveitarfélagsins,“ sagði Stefán Bogi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.