Hafa áhyggjur af líðan og rútínu framhaldsskólanema - Myndband

Myndband sem ráðgjafar við nemendaþjónustu Menntaskólans á Egilsstöðum gerðu í byrjun vikunnar, þar sem nemendur eru hvattir til dáða á erfiðum tímum í námi, hefur vakið mikla athygli. Félagsráðgjafi segir það reyna á marga nemendur að geta ekki umgengist skólafélaga sína.

„Þær aðstæður sem við sýnum í myndbandinu eru ekki alveg út í loftið heldur byggja á tilfinningu okkar fyrir ástandi sumra nemenda, þótt við reynum að gera þetta líflegt og fyndið.“

Þetta segir Hildur Bergsdóttir, félagsráðgjafi við ME sem gerði myndbandið ásamt náms- og starfsráðgjafanum Nönnu Imsland. Í því sviðsetja þær aðstæður sem geta verið lýsandi fyrir framhaldsskólanemendur, sem vegna samkomubanns mega ekki mæta í skóla, með ráðleggingum um hvort eigi að „varast eða velja“ viðkomandi stöðu.

Nemendur eru meðal annars áminntir um mikilvægi þess að sofa vel, hreyfa sig, rækta vinsambönd og borða hollt. „Krakkarnir vita að þetta skiptir allt máli en við vildum reyna nýja leið til að ná til þeirra og kveikja gleði eða hvata,“ segir Hildur.

Stundum erfitt að rífa sig af stað

Nemendur ME hafa verið heima hjá sér nær samfleytt síðan í byrjun október, utan þriggja daga þar sem undanþága fékkst áður en samkomutakmarkanir voru hertar á ný í byrjun mánaðarins. Námið er því flest kennt í gegnum tölvur. Nemendur á starfsbraut og framhaldsskólabraut 1 fá að mæta í skólann í hefðbundnar kennslustundir.

„Margir höndla ástandið ágætlega og standa sig vel en við í nemendaþjónustunni sjáum kannski frekar þá sem eiga erfitt uppdráttar. Við vitum að þau eiga sum erfitt með sjálfstæð vinnubrögð og aga þannig að við höfum áhyggjur af rútínunni þeirra yfir daginn, stundum er auðvelt að sofa til hádegis og horfa á einn þátt frekar en rífa sig af stað og mæta í tíma,“ segir Hildur.

Félagslífið vantar

Það er ekki bara námið sem getur orðið erfitt heldur andlega og félagslega hliðin líka. „Þetta er ákveðin félagsleg einangrun. Krakkarnir fá ekki að hitta vini sína og síðan eru sumir sem eru ekki duglegir að heyra í félögum sínum en fá félagsskapinn í skólanum. Það verður erfitt þegar ekki er þetta eðlilega flæði í samskiptum,“ útskýrir Hildur.

Að geta ekki hitt vinina kemur líka niður á náminu. „Þau lenda í vandræðum með heimanámið og geta þá ekki snúið sér að sessunauti sínum eftir aðstoð. Síðan hafa þau kannski heldur ekki hitt kennarann í faginu sem gerir þau ragari að spyrja hann spurninga.“

En ástandið tekur ekki bara á nemendur heldur líka kennara. „Kennararnir hér lyftu grettistaki í vor þegar þeir voru fljótir að tileinka sér tæknina og við höfum fundið ýmsar lausnir sem virka vel. Það er hins vegar ekki skylda að hafa kveikt á myndavélinni þannig að kennarinn talar oft frammi fyrir svörtum skjá. Það gerir það að verkum að kennarar vita ekki hverjir eru virkir í tíma. Þetta eru flóknar aðstæður báðu megin frá.“

Aðstoða þá sem eru í vanda

Hildur segir erfitt að henda reiður á hvernig staðan sé á nemendahópnum heilt yfir. Talsvert sé leitað til nemendaþjónustunnar en á því sé daga munur. Nú sé framundan miðspannarmat og í tengslum við það sé álag. Hún vonast hins vegar til að gleggri mynd fáist á stöðuna í lok vikunnar og þá verði hægt að bregðast við og aðstoða þá nemendur sem séu í erfiðleikum.

„Í tengslum við matið fáum við ábendingar frá kennurum um nemendur sem hafa ekki mætt í tíma eða skila ekki verkefnum. Nefnd um innra mat skólans er þessa dagana að vinna úr niðurstöðum Skólapúls þar sem könnuð er líðan, virkni og aðstæður nemenda. Samkvæmt frumniðurstöðum finna fleiri nemendur okkar einkenni þunglyndis og kvíða nú í haust en á sama tíma í fyrra.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.