Göngukonan fundin

Göngukona sem leitað hafði verið að í sunnan verðum Seyðisfirði frá því um klukkan átta í kvöld fannst um klukkan hálf tólf í kvöld. Hún var þokkalega á sig komin og treysti sér til að labba með leitarfólki til byggða.


Konan var í fjallinu Flanna upp af Þórarinsstöðum í sunnanverðum Seyðisfirði. Von er á henni til byggða upp milli klukkan eitt og tvö í nótt. Um fimmtíu manns af öllu Austurlandi tóku þátt í leitinni.

Hún hófst upp úr klukkan átta í kvöld þegar konan hafði samband við Neyðarlínu og lét vita um að hún væri villt í þoku.

Starfsfólki Neyðarlínunnar tókst að miða út staðsetningu konunnar út frá síma hennar eftir að hún lét vita af sér. Fyrsti leitarflokkurinn tók stefnuna að þeim punkti og fann konuna þar skammt frá.

Guðjón Már Jónsson sem var í stjórnstöð á Seyðisfirði í kvöld segir að leitin hafi gengið hægt en vel miðað við erfið skilyrði. Svartaþoka var á svæðinu og sáu leitarfólki ekki lengra en 5-10 metra frá sér á leiðinni upp. 

„Þau sjá varla fram fyrir tærnar á sér núna,“ sagði Guðjón um miðnættið en leitarflokkar voru þá á leiðinni til byggða.


Guðjón telur konuna hafa tekið rétta ákvörðun með að halda ekki lengra og kalla eftir hjálp. „Þar sem hún stoppar er eiginlega bara hengiflug fram af á þrjá vegu. Það er bara ein leið fær þarna. Hún tók því algjörlega rétta ákvörðun.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.