Gögn vantar um brýr í íslenska vegakerfinu

Takmörkuð gögn virðast til um framkvæmdir við brýr í íslenska vegakerfinu. Gögnin gætu nýst við viðhald brúanna og áhættugreiningu. Litlar áhyggjur virðist þurfa að hafa af austfirskum brúm.

Þetta kemur fram í nýrri samantekt verkfræðistofunnar Eflu fyrir Vegagerðina sem greint var frá í Framkvæmdafréttum í sumar. Skoðuð voru gögn fyrir tólf brýr, þar af fjórar á Austurlandi en alls eru um 150 eftiráspenntar brýr í vegakerfinu. Brýrnar eru byggðar á árunum 1980-2010.

Notast var við breskan matslykil um áhættumat á brúm. Við matið er meðal annars safnað gögnum um bygginu brúarinnar svo sem svo sem hönnunarskýrslum, teikningum, verklýsingum og framkvæmdaskýrslum frá hönnuðum, verktökum, eftirlitsaðilum og verkkaupa. Einnig skal safna saman skýrslum um eftirlit og fyrri áhættugreiningar á líftíma brúarinnar, séu þær til staðar.

Meginniðurstaða könnunarinnar eru að almennt vanti gögn um brýrnar. Teikningar voru til fyrir þær en ekki virðist hafa verið haldið uppi á mikið af öðrum gögnum frá framkvæmdatíma, alla veganna tókst ekki að finna þau. Ekki sé útilokað að þau séu enn til. Um eina brú fannst greinargerð um sprunguskoðun og spennilistar fyrir helming brúanna.

Út frá matinu er brúnum gefin stig sem nýst geta við forgangsröðun framkvæmda eða frekari skoðunar. Þar sem lítið er til af gögnum er stuðst við umferðartölur og aldur brúar.

Þrjár brýr þykja skera sig sig úr og mælt er með að fengnir verði sérfræðingar til að skoða þær nánar. Engin þeirra eru á Austurlandi.

Miðað við stigaskorið eru austfirsku brýrnar fjórar aftarlega á forgangslistanum en fær sú sem efst er á listanum, yfir Sog við Þrastarlund, 25 stig. Miðað við orðalag skýrslunnar er þó óþarft að óttast um brúna.

Brúin yfir Breiðdalsá byggð 1983, yfir Norðfjarðará byggð 2002 og yfir Jóku í Skriðdal frá 2010 fá allar 7,1 í einkunn. Brúin yfir Eyvindará við Egilsstaði, sem byggð var 2001, fær 4,7.

Viðhald brúa hefur verið í umræðunni undanfarna viku eftir að hluti brúar á hraðbraut við ítölsku borgina Genóa hrundi og kostaði um 40 manns lífið. Samantekt íslensku skýrslunnar er liður í lengra ferli í mati á ástandi spennikapla í brúm.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.