Góð verð í boði á komandi síldarvertíð

Baldur Marteinn Einarsson útgerðarstjóri Eskju á Eskifirði segir að síldarvertíðin muni hefjast í lok þessarar viku. Baldur reiknar með ágætis vertíð í haust. Norðmenn eru að fá mjög góð verð fyrir síldina þessa dagana.

„Ég reikna með ágætis vertíð í haust og líst bara vel á hana,“ segir Baldur Marteinn í samtali við Austurfrétt. „Við hefjum veiðarnar í lok þessarar viku eða um næstu helgi.“

Á vefsíðunni Undercurrent news kemur fram að Norðmenn eru að fá mjög góð verð fyrir sína síld þessa dagana. Þeir eru sem stendur að veiða hana norður af Skotlandi. Nú fást að meðaltali 6,4 nkr. fyrir kílóið eða rétt tæpar 100 kr. sem er hækkun um 20% frá sama tíma í fyrra.

Aðspurður um verð á komandi vertíð segir Baldur Marteinn að hann eigi von á að verðin verði skapleg og ekki verri en í fyrra.
„En það er margt sem getur haft áhrif ekki hvað síst COVID eins og dæmin sanna,“ segir hann.

Heildarkvóti Íslendinga í norsk/íslensku síldinni er 86 þúsund tonn. Af því magni er Eskja með rúmlega 10 þúsund tonn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.