Gjaldfrjáls námsgögn í Fjarðabyggð

Námsgögn í grunnskólum Fjarðabyggðar verða gjaldfrjáls frá og með nýju skólaári. Reiknað er með að kostnaður sveitarfélagsins nemi 3-4 milljónum króna á ári.


Þetta var samþykkt á fundi bæjarráðs á mánudag að undangenginni tillögu Fjarðalistans sem lagði til að námsgögnin yrðu gjaldfrjáls frá og með haustinu 2018 eða fyrr væri þessi nokkur kostur.

Fulltrúar meirihlutans brugðust við með bókun um að námsgögnin verði ókeypis strax í haust.

Í bókun Eydísar Ásbjörnsdóttur, fulltrúa Fjarðalistans, er því fagnað að meirihlutinn hafi brugðist hratt og vel við tillögu minnihlutans. Í rökstuðningi hennar segir að frí námsgögn séu liður í því að vinna gegn mismunun barna og styðji við jafnræði í námi.

Fulltrúar bæði meiri- og minnihluta bókuðu á fundinum um árangur sem náðst hafi á síðustu árum að efla aðgengi barna og unglinga í Fjarðabyggð að gjaldfríu eða gjaldlitlu íþrótta- og tómstundastarfi.

Áætlaðir viðbótarkostnaður er 3-4 milljónir króna og verður á næstunni lagður fram viðauki að fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.

Umræða um gjaldfrjáls námsgögn komst á skrið fyrir páska þegar skorað var á menntamálaráðherra að breyta grunnskólalögum þannig að námsögn í grunnskólum yrðu ókeypis. Samtökin Barnaheill hafa bent á að kostnaðurinn sé bæði baggi á barnafjölskyldum og í ósamræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Reykjanesbær reið á varið með samþykkt í maí en fleiri sveitarfélög, meðal annars Akureyri, Reykjavík og Hornafjörður eru með málið til skoðunar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.