Gistinætur Íslendinga á Austurlandi margfölduðust í júlí

Gistinætur Íslendinga margfölduðust á Austurlandi í júlí miðað við sama tímabil í fyrra. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans. Herbergjanýtingin var einnig best á Austurlandi eða nær á pari við júlí í fyrra.

Í Hagsjánni segir að gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 674% á Austurlandi og 552% á Norðurlandi í júlí. Til samanburðar var fjölgunin einungis 54% á höfuðborgarsvæðinu og var hún neikvæð um 49% á Suðurnesjum. Þessa fækkun á Suðurnesjum má líklegast rekja til þess að gistinætur Íslendinga þar á síðustu árum hafa fyrst og fremst verið í tengslum við utanlandsferðir þeirra.

Á eftir Austurlandi og Norðurlandi var fjölgunin mest á Suðurlandi, 312% og Vesturlandi og Vestfjörðum 203%.

Hvað varðar erlenda ferðamenn Austurlandi og Norðurlandi dróst fjöldi gistinátta þeirra saman um 78% og var það svipað hlutfall og á öðrum svæðum.

Besta nýtingin

Ennfremur segir í Hagsjánni að það þurfi því ekki að koma á óvart að herbergjanýtingin hafi verið best á Austurlandi og Norðurlandi í júlí. Nýtingin var 73,3% á Austurlandi og 70,8% á Norðurlandi. Þar á eftir voru Vesturland og Vestfirðir með 55,5% nýtingu. Nýtingin var lægst á Suðurnesjum, 29,1% og höfuðborgarsvæðinu, 34,6%.

Nýtingin á Austurlandi og Norðurlandi lækkaði ekki mikið frá fyrra ári en nýtingin í júlí í fyrra var 80,8% á Austurlandi og 78,5% á Norðurlandi. Á öðrum svæðum landsins dróst nýtingin mun meira saman. Mest dróst hún saman á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.