Gert ráð fyrir 25 milljóna afgangi af rekstri Djúpavogshrepps

djupivogur.jpg
Gert er ráð fyrir um 25 milljóna króna afgangi af rekstri Djúpavogshrepps á árinu. Sveitarstjórnarmenn eru ánægðir með þann árangur sem náðst hefur í rekstri sveitarfélagsins á undanförnum árum.

Sveitarstjórnin samþykkti fjárhagsáætlun ársins á fundi fyrir jól en þar er gert ráð fyrir 25 milljóna króna afgangi af rekstri hreppsins á þessu ári. Veltufé frá rekstri er áætlað rúmar 55 milljónir króna. Eignir sveitarfélagsins eru metnar á um 620 milljónir en skuldir eru rúmar 430 milljónir. Eigið fé hreppsins er áætlað 190 milljónir í árslok.

Þrjátíu milljóna króna hagnaður varð af rekstri sveitarfélagsins árið 2011. Eigið fé sveitarfélagsins hefur aukist og skuldir lækkað en heildareignir hafa einnig lækkað. Fyrir áramót var samþykkt sala hússins sem áður hýsti Dvalarheimilið Helgafell.

Í bókun sveitarstjórnar segir að áfram verði lögð áhersla á að standa vörð um þá grunnþjónustu sem byggð hafi verið upp í sveitarfélaginu á undanförnum árum. Áfram verði leitað að leiðum til að hagræða í rekstrinum og möguleikum til að selja eignir sem ekki snúa að lögbundnum verkefnum.

Ýmsar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á vegum Djúpavogshrepps á árinu. Markarland 2 stendur til að taka í gegn og byggja þar upp félagsaðstöðu eldri borgara sem á að verða tilbúin í sumar. Bjóða á út nýsmíði á smábátabryggju og skipta um jarðveg og endurnýja lagnir í götunni Hrauni.

Í bókuninni segir enn fremur að sveitarstjórnarmenn líti björtum augum á framtíðina, „ekki síst í ljósi jákvæðrar íbúaþróunar þar sem kraftmikið ungt fjölskyldufólk hefur verið að fjárfesta og setjast að á Djúpavogi í auknum mæli á síðustu árum enda hlutfall ungra barna hér  það hæsta í fjórðungnum .  

Þótt enn sé brýnt að bæta úr þá hefur atvinnuleysi farið minnkandi m.a. með aðgerðum og verkefnum sem sveitarfélagið hefur haft forgöngu um og hafa skráðir atvinnulausir á svæðinu ekki verið jafn fáir í mörg herrans ár. 

Sveitarstjórn er sammála að með margvíslegum hagræðingaraðgerðum, auk þess að nýta ýmis sóknarfæri á síðustu misserum hafi umtalsverður árangur náðst í rekstri sveitarfélagsins, ekki síst ef litið er til þess erfiða rekstarumhverfis sem sveitarfélög almennt hafa glímt við á síðustu árum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.