Geldur varhug við borgarstefnu stjórnvalda

Nýkynnt fyrstu drög að borgarstefnu stjórnvalda, sem meðal annars felur í sér að Akureyri verði að formlegri borg auk Reykjavíkur, eru til þess fallin að draga enn meira úr vægi annarra landshluta eins og Austurlands að mati sveitarstjórnarmanns hjá Múlaþingi.

Borgarstefna sitjandi ríkisstjórnar var formlega kynnt opinberlega í síðasta mánuði af hálfu Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra en stefnan er nú til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda.

Samkvæmt henni skal stuðla sérstaklega að þróun og eflingu höfuðborgarsvæðisins og Akureyrar sem einu borgarsvæða landsins. Slíkt muni styrkja hlutverk þeirra svæða, efla samkeppnishæfni landsins alls og stuðli að sjálfbærum samfélögum sem séu eftirsótt til búsetu, atvinnu auk þess að stórauka aðgengi að allri þjónustu.

Stefnan sem slík var tekin fyrir á síðasta fundi byggðaráðs Múlaþings þar sem engar ákvarðanir voru teknar en málið þó áfram í vinnslu þar. Einn aðili, Þröstur Jónsson úr Miðflokki, lét þó bóka þá skoðun sína að þetta yrði mjög miður fyrir Austurland og væri algjörlega á skjön við raunverulega byggðastefnu í landinu.

Nógu erfitt hefur hingað til verið fyrir fámenna landsbyggðina að etja kappi við sívaxandi höfuðborg. Múlaþing, og raunar Austurland allt, hefur átt í samkeppni við Akureyri. Má þar til nefna í málefnum flugvalla og heilbrigðisþjónustu auk nýlegra kjördæmabreytinga sem hefur veikt vægi Austulands gagnvart mun fjölmennari Akureyri. Svo virðist sem áhugi stjórnvalda beinist nú að því að þétta byggð nær "borgunum tveim" á enn meiri kostnað landsbyggðar. Þetta má meðal annars sjá í vegaframkvæmdum á landsbyggðinni þar sem ríkisvaldið dregur lappirnar með minnstu nýframkvæmdir svo sem Axarvegar. Legg því til að gerð borgarstefnu verði slegin af og í þess stað að stjórnvöld einbeiti sér að öflugri byggðarstefnu, sem stuðlar að byggð í landinu öllu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.