Gangnamálin fyrirferðamikil fyrstu dagana

Aðalheiður Borgþórsdóttir tók við starfi bæjarstjóra Seyðisfjarðarkaupstaðar í byrjun vikunnar. Hún segist hlakka til að takast á við starfið þótt mikið af verkefnum bíði hennar.

„Mér líst vel á þetta. Þetta er dálítið yfirþyrmandi til að byrja með, það er mikið af verkefnum sem maður þarf að henda sér í og margt að læra,“ segir Aðalheiður.

Aðspurðu segir hún að barátta Seyðfirðinga fyrir jarðgöngum sé fyrirferðamest en samkvæmt samgönguáætlun sem lögð var fram á Alþingi í síðustu viku verður ekki byrjað á þeim næstu tíu ár.

„Við erum að reyna að tala við yfirvöld um að hnika þeim áfram. Við trúum ekki að þeim verði seinkað eins og fram kemur í samgönguáætlun.“

Af öðrum helstu verkefnum nefnir Aðalheiður Fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í næstu viku og fjárhagsáætlunargerð, auk þess sem fyrstu dagarnir hafa farið í að hitta starfsfólk og kynnast starfi sveitarfélagsins. Þá sat Aðalheiður sinn fyrsta bæjarráðsfund í gær.

Með ráðningu Aðalheiðar í lok júlí var brotið blað í sögu kaupstaðarins því hún er fyrsta konan til að verða bæjarstjóri á Seyðisfirði. Þá er hún önnur af tveimur konum sem gegna stöðu framkvæmdastjóra hjá sveitarfélögunum sjö á Austurlandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.