„Gaman að geta opnað fyrr á Hallormsstað en í fyrra“

Stærsta hótel Austurlands, Hótel Hallormsstaður, opnar fyrir almennum gestum 17. júní. Þar með lýkur hlutverki þess sem sóttkvíarhótels. Staða ferðaþjónustunnar fyrir sumarið virðist vera að vænkast.

„Við erum tilbúin og fyrstu gestirnir á leiðinni. Það er gaman að geta opnað á Hallormsstað örlítið fyrr en í fyrra, þá var það 20. júní. Svo vonumst við til að geta haft opið fram eftir október,“ segir Sigrún Jóhanna Þráinsdóttir, framkvæmdastjóri 701 Hotels.

Hótel Hallormsstaður hefur síðan í byrjun apríl gegnt hlutverki sóttkvíarhótels Austurlands. Þar hafa þeir farþegar Norrænu, sem lögum samkvæmt hafa þurft í sóttkví við komuna til landsins, dvalist. Sigrún segir að það hafi almennt ekki verið margir einstaklingar í hvert sinn og því aðeins lítill hluti hótelsins verið nýtt. Þrif eftir síðustu sóttkvíargestina hafa því gengið hratt og vel.

„Þetta verkefni hefur gengið vel en samningur okkar við Sjúkratryggingar Íslands er að renna út og orðið það mikið bókað á Hallormsstað að hótelið þar þarf að taka á móti almennum gestum,“ útskýrir Sigrún.

Núverandi takmarkanir á landamærunum gilda út júní. Næstu tvær vikurnar mun Valaskjálf á Egilsstöðum taka við hlutverki sóttkvíarhótelsins. „Þeir sem þurfa í sóttkví verða í hótelhlutanum. Hlutfall þeirra sem þurfa í sóttkví lækkar með hverri ferð Norrænu, en þessi þjónusta þarf að vera til staðar og við höfum talið það samfélagslega skyldu okkar að hjálpa til.

Við getum auðveldlega skipt Valaskjálf upp þannig að barinn, salirnir og veitingastaðurinn Glóð verða opnir áfram. Þarna verður enginn samgangur á milli.“

Þannig opna staðir 701 Hotels einn af öðrum á næstunni. „Glóð er núna opin alla daga nema sunnudaga og mánudaga og hefur verið vel sótt. Fljótlega verður opið alla daga. Við erum að kynna nýjan matseðil þar í dag, við erum alltaf með stærri seðil á sumrin en veturna. Á Hallormsstað opnar veitingastaðurinn Kol um leið og hótelið en hlaðborðið á neðri hæðinni 1. júlí.“

Landið virðist því vera að rísa hjá ferðaþjónustuaðilum eftir erfiðan vetur vegna Covid-takmarkana. „Ég á von á að það verði blanda íslenskra og erlendra ferðamanna hér þegar líður á sumarið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.