Gagnrýnir samning Múlaþings við Samtökin 78

Sveitarstjórnarfulltrúi Miðflokksins gagnrýnir samning sem Múlaþing hefur gert við Samtökin 78 um fræðslu um málefni hinsegin fólks innan sveitarfélagsins á þeim forsendum að bæði kostnaður og námsefni séu óskýr. Fulltrúar annarra flokka hafa fordæmt orð fulltrúans í umræðunni og segja þau sanna hvers vegna þörf sé á fræðslunni.

Samningur við Samtökin 78, félag hinsegin fólks á Íslandi, um víðtæka fræðslu innan Múlaþings til næstu þriggja ára var staðfestur af bæjarstjórn í mars að undangenginni umræðu í fjölskylduráði í febrúar. Í bókun ráðsins var því fagnað að samningurinn væri í höfn og lýst tilhlökkun til að taka þátt í samstarfinu.

Samkvæmt samningnum munu Samtökin veita starfsfólki leik- og grunnskóla, íþróttamiðstöðva og þjálfurum íþróttafélaga auk stjórnenda hjá Múlaþingi fræðslu um kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu og kyneinkenni. Fræðsla verður í boði fyrir starfsfólk félagsmiðstöðva auk þess sem því er boðið í félagsmiðstöð Samtakanna. Ennfremur verða erindi fyrir nemendur í þremur árgöngum, 3. 6. og 9. bekk grunnskóla á skólatíma auk fræðslu fyrir ungmenni í félagsmiðstöðvum. Þá verður fræðsla fyrir starfsfólk og stjórnendur í búsetu hjá sveitarfélaginu. Að lokum fá íbúar Múlaþings aðgang að ráðgjöf Samtakanna.

Heildarupphæð samningsins er tæpar 3,9 milljónir króna. Þröstur Jónsson, sveitarstjórnarfulltrúi Miðflokksins, sagðist á síðasta bæjarstjórnarfundi hafa lagt saman liðina og fengið út 2,6 milljónir króna. Útreikningar Austurfréttar staðfesta tölurnar í samningnum.

Á fundi fjölskylduráðs í byrjun apríl óskaði áheyrnarfulltrúi Miðflokksins eftir að undirritun samningsins yrði frestað þar til ráðið hefði kynnt sér fræðsluefnið. Í samhljóða bókun fulltrúa í ráðinu er óskinni hafnað og henni lýst sem tilburðum til ritskoðunar á mikilvægu mannréttindamáli. Ráðið hafni að auki öfgafullri umræðu í garð samfélagshópa og segir forsendur fyrir endurupptöku ekki reistar á faglegum rökum. Því væru engar ástæður til að fresta undirritun enda lá samningurinn, undirritaður 27. mars, fyrir fundinum.

Segir fræðin umdeild


Þröstur gagnrýndi undirritunina á fundi sveitarstjórnar um miðjan apríl, en hann hafði einnig haft uppi gagnrýni á fundi hennar í mars. Hann sagði að á milli funda hefði upphafist umræða í íslensku þjóðfélagi um þessu málefni sem sýndi að efasemdir hans væru að raungerast. Þess vegna yrði hann samvisku sinnar og sannfæringar vegna að taka málið upp.

Þröstur sagði áhyggjur sínar byggja á sterkum viðbrögðum annarra samtaka og vísaði þar til Samtakanna 22. Þau voru stofnuð í fyrra og kynna sig sem hagsmunasamtök homma og lesbía. Málflutningur þeirra hefur vakið sterk viðbrögð, í vikunni sendu tæplega 300 samkynhneigðir Íslendingar frá sér yfirlýsingu um að samtökin og málflutningur þeirra væri ekki í þeirra nafni.

Það sem skapað hefur hvað hörðust viðbrögð er að Samtökin 22 hafna því að til séu fleiri en tvö kyn og gagnrýna kynleiðréttingarferli. Þau setja þó fyrirvara um að þau séu ekki andvíg inngripi í líf fullorðins fólks sem hjálpi því að líða betur, svo framarlega sem það gangi ekki á rétt annarra, svo sem til kynjaskiptra rýma. Samtökin segja börn ekki til þess bær að taka ákvarðanir sem þessar.

Þröstur sagði kynjafræði umdeild, ekki bara hérlendis heldur á heimsvísu. Hann vísaði einnig til bloggfærslu Jóns Magnússonar, lögmanns, um að bresk stjórnvöld hefðu fyrirskipað óháða rannsókn um kynjafræðslu í grunnskólum. Breski forsætisráðherrann hefur annars vegar fyrirskipað gerð leiðbeininga um hvernig starfsfólk skóla skuli bregðast við ef börn lýsa áhyggjum af kyni. Er það eftir gagnrýni um að foreldrar væru ekki látnir vita ef börn kæmu fram með slíkar vangaveltur. Hins vegar ætlar ríkisstjórnin að skoða kynfræðslu eftir fullyrðingar þingmanna um að rætt væri við börn á grafískan hátt um kynlíf sem mögulega væri of bersögull miðað við aldur. Hagsmunasamtök kennara hafa hafnað fullyrðingunni og sagt farið eftir námsskrá.

Þröstur sagðist hafa grun um að Samtökin 78 héldu uppi sams konar fræðslu og gagnrýnd hafi verið í Bretlandi. Því væri rétt að kanna hvort gagnrýni Samtakanna 22 væru á rökum reistar. Hann hefði ekki fengið skýringar á fræðslunni nema að skömmu fyrir fundinn hefði honum verið vísað á vefinn Ö til A á vegum Samtakanna 78 þar sem efnið er aðgengilegt.

Þröstur talaði um að ekki væri hægt að koma með gagnrýni á málefni því þá væri fólk rekið á brott. Hann væri þó vanur að synda á móti straumnum og vera tekinn á beinið fyrir það. Hann sagðist ekki þora að nefna dæmi eins og um vistheimili á Breiðuvík sem sýndu að fara þyrfti gríðarlega varlega þar sem börn væru annars vegar. Á sama tíma sýndi sveitarstjórn af sér „óðagot og ábyrgðarleysi.“

Miður að transfólk þurfi að berjast fyrir tilverurétti sínum


Orð Þrastar vöktu hörð viðbrögð annarra fulltrúa. Sigurður Gunnarsson, varasveitarstjórnarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og formaður fjölskylduráðs, sagðist ekki skilja á hvaða vegferð Þröstur væri. Skólastjórnendum væri treyst fyrir fræðslu og ekki í verkahring kjörinna fulltrúa að ritskoða námsefni. Hann sagði Samtökin 78 njóta trausts í íslensku samfélagi sem sýndi sig í samningum sem önnur sveitarfélög sem og ríkisstjórnin og ríkislögreglustjóri hefðu gert við þau um sambærilega fræðslu.

„Við eigum að styðja við réttindabaráttu samkynhneigðra og hinsegin fólks. Sú mannréttindabarátta hefur staðið áratugum saman. Við eigum að kenna börnunum okkar umburðarlyndi og gagnkvæma virðingu, eyða fordómum og auka skilning,“ sagði Sigurður.

Björg Eyþórsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi Framsóknarflokks og fulltrúi í fjölskylduráði, sagðist ekki skilja hvernig sveitarstjórnarfulltrúi gæti leyft sér að tala opinberlega um málefni hinsegin fólks og kynferðisbrot gegn börnum í sömu setningunni. Hún sagði Samtökin 22 „öfgahóp“ sem beitti orðræðu sem ætlað væri að skapa óreiðu og óöryggi í garð transfólks sem því miður þyrfti að berjast fyrir tilverurétti sínum. Fleiri lýstu Samtökunum 22 á þann hóp eða sem ör- eða klofningshópi.

Hún sagði Samtökin 78 standa fyrir fræðslu sem tæki á öllu litrófinu og yki vellíðan en ekki vanlíðan. Þá væri starfsfólk skólanna inni þegar fræðslan færi fram. Engar efnislegar breytingar hefðu orðið síðan málið hefði áður verið afgreitt og því engin ástæða til að taka það aftur upp. Þá væri það ekki hlutverk kjörinna fulltrúa að ritskoða efni samtaka sem sérhæfðu sig í fræðslu enda væri erfitt að merkja upphaf hennar og endi.

Sameinar aðra sveitarstjórnarfulltrúa


Eyþór Stefánsson, sveitarstjórnarfulltrúi Austurlistans og fulltrúi í fjölskylduráði, sagði fræðslu Samtakanna 78 ekki heyra undir kynfræðslu. Á henni væri hins vegar full þörf til að tryggja frelsi einstaklinga til að vera eins og þeir væru. Ekki væri nýtt að utanaðkomandi aðlar veittu fræðslu í skólum, samanber slökkvilið um brunavarnir. Hann sagði orð Þrastar eiga betur heima á Útvarpi Sögu en bæjarstjórnarfundinum og kvaðst ekki hafa fengið nein svör inni í fjölskylduráðinu þegar hann spurði áheyrnarfulltrúann eftir af hverju í fræðslunni áhyggjurnar stöfuðu. Því ítrekaði hann þá spurningu.

„Ég er skíthræddur um að þú sért stundum að villast svolítið á internetinu,“ sagði Helgi Hlynur Ásgrímsson, sveitarstjórnarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Til væru sjónarmið á skjön við flesta hluti sem fengju að fljóta með í umræðunni en mættu ekki ráða för. Hann sagði Þröst virðast njóta þess að vera „gólfmotta fyrir okkur hin“ og sameina minni og meirihluta sem væri honum erfitt þar sem hann hefði ekki lagt í vana sinn að vera sammála Framsóknarmönnum.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar og oddviti Framsóknarflokks, sagði Þröst hafa, með orðum sínum, fangað mikilvægi þess að farið yrði í fræðsluna. Orðin endurspegluðu viðhorf sem hún væri sammála.

Bannað að vera á annarri skoðun


Þröstur sagði svörin ekki koma sér á óvart, viðbrögðin væru alltaf hin sömu þegar farið væri gegn meginstraumi. „Ef þú syndir ekki með hinum fiskunum í rétta átt ertu vondur, ljótur. Þannig er þetta þjóðfélag okkar orðið.“

Hann sagði það ekki sín að dæma annað fólk eins og sumir aðrir gerðu, það væri Guðs eins. Það útilokaði þó ekki áhyggjur hans af ákveðnum málflutningi „jafnvel költi“ á borð við kynleiðréttingar sem hann sagði gagnrýndar af heilbrigðisstarfsfólki um allan heim og vera umdeild vísindi.

„Ef farið er með ekki bara þessar grjóthörðu staðreyndir um að kynin eru tvö, heldur sett eitthvert huglægt mat á hve mörg þau eru þá er það ákveðin sálfræði, költ, fræði sem halda á að börnunum okkar alveg niður í þriðja bekk. Nei, ég á bara ekkert að vera rólegur.“

Hann sagðist hafa fengið fjölda skilaboða frá fólki sem þakkaði honum fyrir að taka málið upp sem þyrði ekki að opinbera skoðanir sínar sjálft af ótta við útskúfun. Hann sagði sér í blóð borin gagnrýnin hugsun og því leitaði hann uppi upplýsingar á netinu frekar en láta fjölmiðla heilaþvo sig.

Hann kvaðst spyrja um jafnræði til að ræða við grunnskólanemendur, fjölskylduráð hefði áður reynt að ýta „þjóðkirkjunni, kristindóminum, grundvelli okkar samfélags, grundvellinum fyrir umburðarlyndinu“ út úr skólanum en taka „hugsanlega þetta mjög umdeilda költ“ inn.

Eyþór svaraði því að hann vildi ekki ganga svo langt að segja málflutning Þrastar byggja á fordómum en hann talaði hvort sem honum líkaði betur eða verr inn til fólks sem væri með fordóma. Eyþór sagði ekki rétt að kalla Samtökin 78 költ og spurði hvort kenna ætti börnum að jörðin væri flöt.

Málflutningurinn alvarlega árás á transfólk


Eftir fundin sendu Samtökin 22 erindi til byggðaráðs Múlaþings þar sem biðlað er til þess um „að sýna varkárni í þessum málaflokki.“ Þröstur óskaði eftir að formanni Samtakanna 22 væri boðið til fundarins og bókaði vonbrigði með að ekki væri orðið við henni. Byggðaráð vísaði erindinu til fjölskylduráðs sem varð við beiðninni. Eldur Ísidór, formaður Samtakanna 22, mætti til fundar þess í gær.

Í bókun fulltrúa í ráðinu eru fyrri afstaða þess ítrekuð og bætt við að enginn sómi sé í að ráðast gegn fræðslu sem gagnist minnihlutahópum. „Það er alvarleg árás á transfólk að fara fram með rangfærslum um þá fræðslu sem áformuð er á vegum Samtakanna 78. Þó að málshefjendur gefi það út að þeir séu að hugsa um hag barna þá eru þeir að brjóta illilega á réttindum þeirra barna sem tilheyra viðkvæmum minnihlutahópi sem stendur höllum fæti og situr undir óvægum árásum nú um stundir,“ segir þar.

Í bókun Þrastar, sem sat fundinn sem varamaður áheyrnarfulltrúa Miðflokksins, segir hann það hlutverk menntaðra grunnskólakennara að mennta börn í grunnskólum en ekki Samtakanna 78 sem ráðist að venjulegum samkynhneigðum á vefsíðu sinni og byggi fræðsluna á vikum grunni. „Hvernig má það vera að það þurfi utanaðkomandi hagsmunasamtök sem standa fyrir mjög svo umdeild kynjafræði til að uppfræða börn og unglinga um umburðalyndi og náungakærleika.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.