Fyrstu leyfin til að ala ófrjóan lax

Fiskeldi Austfjarða hefur fengið leyfi til að ala ófrjóan lax í Fáskrúðsfirði og Berufirði. Þetta er í fyrsta sinn sem slík leyfi eru gefin úr hérlendis. Eldið í Fáskrúðsfirði á að fara af stað í vor.

Matvælastofnun gaf á föstudag út endurnýjuð og stærri starfsleyfi Fiskeldis Austfjarða til eldis í fjörðunum tveimur, sem eru um leið fyrstu leyfin til að ala ófrjóan lax við Ísland.

Fyrirtækið hafði áður leyfi til að ala 6000 tonn af laxi í Berufirði og 2000 tonn af silungi en er nú heimilt að ala þar 9800 tonn af lax, þar af 3800 af ófrjóum.

Í Fáskrúðfirði var leyfi upp á 3000 tonna heldi, þar af 1000 tonnum af silungi en nú má ala 11 þúsund tonn af laxi, þar sem 6000 tonn verða frjó og 5000 ófrjó. Í báðum fjörðum verður fyrirtækið með þrjú eldissvæði sem verða nýtt og hvíld til skiptis.

Fiskeldi Austfjarða hefur um árabil rekið fiskeldi í Berufirði en bætir nú framleiðslunni í Fáskrúðsfirði við. Unnið er að samsetningu kvía við Mjóeyrarhöfn en þær verða að vera tilbúnar áður en fyrstu seiðin koma í vor. Frekari uppbygging fylgir um leið.

„Leyfisumsóknirnar hafa verið rúm fimm ár í ferli þannig við erum búin að bíða lengi eftir þeim. Af þeim sökum höfum við seinkað fjárfestingum í seiðastöðvum en við erum að skoða uppbyggingu á þeim. Við höfum verið með stöð í Þorlákshöfn og stefnum á að koma upp stöð við Kópasker,“ segir Guðmundur Gíslason, framkvæmdastjóri Fiskeldis Austfjarða.

Nýta norska reynslu

Leyfin eru gefin út í samræmi við áhættumat Hafrannsóknastofnunar þar sem meðal annars var metin áhættan af að eldislax blandaðist við villtan lax. Guðmundur segir að með eldi á ófrjóum fiski sé að hluta til brugðist við þeirri gagnrýni.

„Með áhættumatinu minnkuðu möguleikarnir á að framleiða meira af frjóum fiski. Þetta er það umhverfi sem við vinnum við og við teljum farsælt að taka mið af umhverfissjónarmiðum þannig að eldið sé sjálfbært og ábyrgt. Það er orðin staðreynd að hægt er að ala lax í sátt við náttúruna og það sóknarfæri er mikilvægt að nýta til að efla byggðina.“

Hugmyndin um eldi á ófrjóum laxi er ekki ný en bæði fiskeldisfyrirtækin og opinberar stofnanir hafa haft varann á gagnvart slíku eldi. Þannig benti Skipulagsstofnun á í aðdraganda leyfisveitingarinnar að óvissa væri um hvort ófrjór lax hentaði til eldis hér við land. Framleiðslukostnaður sé hærri vegna meiri affalla, markaðsverð lægra vegna útlitsgalla auk þess sem framleiða þarf sérfóður fyrir hann.

Fiskeldi Austfjarða starfar með Hafrannsóknastofnun, fyrirtækinu Stofnfiski og Háskólanum á Hólum auk þess að njóta norskrar ráðgjafar um ófrjóa laxinn. „Við höfum undirbúið þetta í nokkurn tíma. Við höfum ráðið tvo reyndar Norðmenn sem alið hafa þúsundir tonna af ófrjóum laxi. Þar hefur verið alinn ófrjór lax í mörg ár með góðum árangri. Síðustu misseri hafa líka orðið miklar framfarir í fóðursamsetningu og við lítum á þetta sem verkefni til að fara í,“

Kröfur um eftirlit

Af öðrum atriðum í starfsleyfinu, sem gefið er út af Matvælastofnun, má nefna kröfur um vöktun á næringarefnum og botndýralífi undir kvíunum. Kvíarnar eru taldar hafa nokkur áhrif á ásýnd fjarðanna en þau séu afturkræf. Þá hafi framkvæmdin jákvæð áhrif á samfélagið á Austfjörðum með auknum atvinnutækifærum.

Matvælastofnun telur litlar hættu á að sjúkdómar berist úr eldislaxi í villtan lax, jafnvel þótt eldislaxinn sleppi. Áhættan sé mest á aðra eldisfiska þegar verið sé að flytja fiska eða hrogn. Ekki hafi verið sýnt fram á það erlendis með óyggjandi hætti að alvarlegar veirusýkingar i eldislaxi hafi haft neikvæð áhrif á villta stofna. Undantekningin er hins vegar laxalús sem gát þarf að hafa á.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.