Fyrsta staðbundna háskólanámið á Austurlandi komið af stað
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 01. sep 2025 13:46 • Uppfært 01. sep 2025 13:48
Á annan tug nemenda hófu í síðustu viku nám í skapandi sjálfbærni við Hallormsstaðaskóla. Námið er komið á háskólastig í samvinnu við Háskóla Íslands og telst þar með fyrsta staðnámið á háskólastigi á Austurlandi. Haldið var upp á tímamótin á Hallormsstað á fimmtudag.
„Þetta er stórt skref í austfirskri menntasögu og nýtt skref í sögu skólans,“ sagði Bryndís Fiona Ford, fyrrverandi skólameistari sem fylgt hefur skólanum í gegnum breytingarnar.
Hún lét af störfum síðasta vetur og tók við sem framkvæmdastjóri Austurbrúar en er áfram í námsstjórn skólans. Í sumar var Myrra Mjöll Daðadóttir ráðin þar forstöðumaður. Sigrún Hanna Þorgrímsdóttir var um leið ráðin aðjúnkt.
Skólastarf hófst á Hallormsstað árið 1930 undir merkjum Hússtjórnarskólans. Það entist fram til 2019 þegar náminu var breytt í skapandi sjálfbærni. Gallinn var hins vegar að námið lenti milli skólastiga þannig að nemendur fengu hvorki gráður né viðurkenndar einingar.
Undanfarin ár hefur verið unnið að því að koma náminu upp á háskólastig og stórt skref var stigið með viljayfirlýsingu milli skólans, ráðuneytis háskólamála og Háskóla Íslands í lok árs 2023. Síðasta vetur var unnið að því að fá námið vottað. HÍ mun bera faglega ábyrgð á náminu og halda utan um nemendur en Hallormsstaðaskóli leggur til aðstöðuna.
Háskóli Íslands skóli alls landsins
„Ég tel mikil tækifæri felast í þessu samstarfi Háskóla Íslands og Hallormsstaðaskóla. Mikil tækifæri eru til frekari þróunar námsins, þróunar einstakra námskeiða - mögulega örnámskeiða, símenntunartækifæra, rannsókna og tenginga milli Hallormsstaðar, Austurlands og annarrar starfsemi Háskóla Íslands um land allt,“ sagði Silja Bára Ómarsdóttir, rektor HÍ, í ræðu sinni.
Hún sagði að með þessari samvinnu yrði Hallormsstaðaskóli áfram „miðstöð nýsköpunar, sjálfbærni og skapandi menntunar, þar sem arfleifð stofnendanna lifir í gegnum framtíðarsýn skólans.“
Hallormsstaðaskóli er þar með orðinn þriðja starfsstöð HÍ á Austurlandi en fyrir eru rannsóknasetur á Breiðdalsvík og Egilsstöðum. Það þriðja er í undirbúningi á Eskifirði. „Tilkoma þessa náms er stór áfangi í því að tryggja að Háskóli Íslands sé háskóli alls landsins, þéttbýlis jafnt sem dreifbýlis,“ sagði hún.
Haldið í grunngildin
Ragnar Sigurðsson, formaður skólastjórnar, sagði að hjónin Sigrún P. Blöndal og Benedikt G. Blöndal, sem stofnuðu skólann, hefðu ekki aðeins komið á fót skóla heldur menningarheimi með því að samtvinna verklegt og bóklegt nám. „Það var metnaðarfull sýn á sínum tíma, og hún lifir í okkur enn.“
„Frá upphafi hefur Hallormsstaðaskóli lagt áherslu á sjálfbærni, þekkingu á hráefni og hæfni í fullnýtingu þess í bland við staðgóða almenna menntun og menningarvitund. Hér var sköpun bæði í handverki og hugsun samofinn þráður námsins.
Það er þess vegna eðlileg framhaldssaga að við, í samstarfi við Háskóla Íslands, bjóðum nú upp á skapandi sjálfbærni á háskólastigi. Með því helgum við okkur sömu grunngildi og í upphafi, en lyftum þeim upp á nútímalegt fræðastig.
Austurland er ríkulegt af efniviði fyrir námið sem við setjum nú á laggirnar: náttúra, hráefni, menning og lifandi samfélög. Sagan er styðjandi þáttur, en samtíminn kallar líka skýrt: við þurfum raungóða þekkingu í sjálfbærni og skýra vitund um hvernig við nýtum auðlindir af ábyrgð,“ sagði hann enn fremur.
Við athöfnina var einnig tekinn í notkun Helgilundur, nefndur eftir Helga Elíssyni frá Hallfreðarstöðum í Hróarstungu. Helgi lést árið 2022 en áður kenndi hann nemendum og starfsfólki Hallormsstaðaskóla grunninn í að leggja hellur. Útkoman varð lítið eldstæði innan við skólahúsnæðið.