Fyrsta skóflustungan að nýju húsnæði Fiskmarkaðarins

Fyrsta skóflustungan að nýju húsnæði Fiskmarkaðar Austurlands í Neskaupstað var tekin í síðustu viku. Framkvæmdastjóri markaðarins segir það bæta aðstöðu starfseminnar til muna.

„Mestu umsvifin hjá okkur undanfarin ár hafa verið á Stöðvarfirði og í Neskaupstað. Við tókum á móti um 8000 tonnum í Neskaupstað í fyrra þótt við hefðum ekkert húsnæði,“ segir Jóhann Arnarson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðarins.

Það var Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, sem tók fyrstu skóflustunguna á miðvikudaginn í síðustu viku. Um tvö ár eru síðan stefnan var sett á að ráðast í bygginguna sem verður staðsett á mótum Hafnarnaustar og Naustavegar.

„Mest af því sem við tökum á móti fer beint í bíla og gáma en það sem ekki gerir það verður hægt að geyma í húsinu. Við fáum að auki aðstöðu fyrir starfsmenn og geymslu fyrir tækin okkar þannig þetta verður mikil framför,“ segir Jóhann.

Húsið verður rúmir þrjú hundruð fermetrar að stærð. Það er límstréshús frá Límtré Vírnet og er væntanlegt á svæðið seinni hluta október en vonast er til að það verði risið um miðjan nóvember. Haki ehf. sér um jarðvegsvinnu, Nestak steypir sökkulinn en verkfræðistofan Efla hefur haldið utan um verið. Vonast er til að það verði fullfrágengið fyrir næsta vor en sumarmánuðirnir eru þeir annasömustu hjá Fiskmarkaðinum.

Aðalaðsetur Fiskmarkaðarins er á Eskifirði en hann hefur þjónustað smábáta á svæðinu frá Seyðisfirði til Stöðvarfjarðar. Á síðasta ári seldi markaðurinn um 4500 tonn af fiski og nam verðmæti hráefnisins yfir milljarði króna. Að sögn Jóhanns er um 80% hráefnisins seld áfram til Reykjavíkur til frekari vinnslu.

Þess utan þjónustaði það um 9000 tonn í viðbót frá bátum sem lönduðu á Austfjörðum, alls um 14.000 tonn. Hjá fyrirtækinu starfa að jafnaði 4-5 starfsmenn.

Karl Óttar tekur fyrstu skóflustunguna. Mynd: Jóhann Arnarson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.