Fyrsta bólusetningin gegn COVID á hádegi á Egilsstöðum

Fyrsta bólusetningin gegn COVID á Austurlandi verður á hádegi í heilsugæslustöðinni á Egilsstöðum. Fyrstu 170 skammtarnir af bólefninu komu til Egilsstaða með flugi í morgun.

„Það er alveg frábært og hreint stórkostlegt að bóluefnið sé loksins komið gegn þessari veiru,“ segir Guðjón Hauksson forstjóri HSA.

Guðjón segir að þeir muni fylgja þeim leiðbeiningum sem gefnar hafa verið út um hverjir séu í forgangi með að fá bóluefnið.
„Við munum því byrja á heilbrigðisstarfsfólkinu sem er í mesta áhættuhópnum og síðan færum við okkur út í hjúkrunarheimilin,“ segir Guðjón.

Ljóst er að bóluefnið mun koma í litlum skömmtum til að byrja með eins og í morgun en Guðjón segir að það sé sóttvarnarlæknir sem stjórni dreifingu þess um landið.

Aðspurður um hve marga skammta þurfi til að bólusetja alla íbúa Austurlands segir Guðjón að lauslega áætlað séu skammtarnir um 16.000 talsins að því gefnu að bólusetja þarf hvern einstakling tvisvar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.