Full tilhlökkunar að opna loks á Austurlandi

Umboðsaðilar Lindex á Íslandi hafa í þrjú ár leitað eftir hentugu húsnæði til að opna verslun á Egilsstöðum. Það bauðst loks í byrjun árs og verslunin verður opnuð á hádegi á morgun.

„Stemmingin er virkilega góð því við berum miklar taugar til Austurlands og Egilsstaða,“ segir Albert Þór Magnússon en hann og Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir eru umboðsaðilar Lindex á Íslandi.

Þau komust í kynni við keðjuna fyrir um áratug þegar þau bjuggu í Svíþjóð þar sem Albert var við nám. Lóa byrjaði við eldhúsborðið að selja föt heim til Íslands í gegnum Facebook. Þau fylgdu því svo eftir þegar þau komu heim um sumarið og fóru hringinn með heimakynningar.

Sú fyrsta þeirra var á Djúpavogi í horni í húsnæði Kjörbúðarinnar. „Við vonumst til að sjá allt það góða fólk sem leit við þá koma og hitta okkur aftur,“ segir hann.

Síðan hefur reksturinn undið upp á sig. Fyrsta Lindex verslunin hérlendis opnaði árið 2011 en búðin á Egilsstöðum verður sú sjöunda í röðinni. Albert segir hana eiga sér langan aðdraganda. „Hún hefur oft verið í umræðunni. Við komum hingað fyrir þremur árum til að skoða aðstæður og höfum nokkrum sinnum gert síðan.

Því urðum við kampakát þegar við fengum fréttir um að við ættum möguleika á þessu rými hér var það sem við vildum helst. Við erum hér í miðpunkti verslunar á Austurlandi með frábæra nágranna,“ segir Albert en verslunin er að Miðvangi 13 á Egilsstöðum við hlið Bónuss, A4 og Subway en verslun Ormsson var síðast í rýminu.

Nammibúð fyrir mæður

Lóa, sem er alin upp á Selfossi, segist trúa að tilkoma verslunarinnar eigi eftir að efla bæjarbraginn á Egilsstöðum og Austurlandi. „Ég man eftir því þegar ég var heima á Selfossi í fæðingarorlofi gerði ég mér glaðan dag með að fara út og versla smá á krílið. Ég finn í mér ískrið í mömmunum þegar þær koma hingað því búðin er falleg, björt og litrík eins og nammibúð.“

Í versluninni á Egilsstöðum verður að finna alla barnafatalínu keðjunnar á Íslandi. „Inn í hana munu koma nýjar vörur á hverjum degi eins og í öllum öðrum verslunum um allan heim. Til viðbótar höfum við handvalið það besta úr undirfatalínunni, enda byrjaði Lindex sem undirfataverslun fyrir 65 árum.“

Risaskjár bætir við vöruúrvalið

Verslunin á Egilsstöðum er heldur minni en aðrar verslanir Lindex hérlendis. Til að bæta það upp er lögð áhersla á þjónustu með netverslun. Við mátunarklefana hefur verið komið upp 70“ skjá þar sem viðskiptavinir geta skoðað úrvalið í netverslun Lindex. Slíkur skjár er ekki enn í annarri Lindex-verslun hérlendis.

„Við erum að kynna þessa nýjung. Hér hefur viðskiptavinurinn aðgang að vöruúrvali okkar á Íslandi og getur fundið hvort hans litur eða stærð sé til og fengið hana senda hingað daginn eftir án aukakostnaðar. Í raun fæst hér allt vöruúrvalið sem fæst í stærstu Lindex verslunum erlendis,“ útskýrir Albert.

Ráðgert er að 3-4 starfsmenn verði í versluninni til að byrja með. Verslunarstjóri verður Margrét Ólöf Sveinsdóttir frá Egilsstöðum.

Sérstakt að opna í samkomutakmörkunum

Að opna verslun á tímum samkomutakmarkana hefur á sér ögn annan blæ heldur en við venjulegar kringumstæður. „Yfirleitt höldum við risapartý en við munum að minnsta kosti telja niður. Þegar við megum svo aftur gera allt það sem hugurinn girnist munum við standa fyrir einhverri uppákomu.

Við hlítum fyrirmælum eins og aðrir en við lítum líka á það sem skyldu okkar að reyna að láta hlutina ganga með að halda áfram og við teljum þetta okkar lið í því. Við erum stolt og þakklát með að vera hér með fullt af fólki sem er tilbúið að standa í þessu með okkur, hvað sem á dynur.

Verslunin er tilbúin, hún tekur vel á móti öllum, við munum taka vel á móti öllum og gerum okkur að sjálfsögðu glaðan dag þegar á hólminn er komið,“ segir Albert.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.