Frummat komið á 10.000 tonna fiskeldi í Seyðisfirði

Fiskeldi Austfjarða hefur lagt fram frummatsskýrslu um umhverfisáhrifin af 10.000 tonna laxeldi í Seyðisfirði.


Niðurstaðan er að áhrif á framkvæmdatíma eru talin verða tímabundin og óveruleg á flesta umhverfisþætti en talsvert jákvæð á flesta þætti samfélags. Öll áhrif eru metin afturkræf, að því er segir í skýrslunni.

Skýrslan og gögn tengd henni er aðgengileg á skrifstofu sveitarfélagsins Múlaþings í Seyðisfirði, Skipulagsstofnun og í Þjóðarbókhlöðunni. Frestur til að skila athugasemdum er til 28. desember.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að Fiskeldi Austfjarða hf. hóf starfsemi árið 2012 og hefur síðan verið unnið markvisst að uppbyggingu laxeldis á Austfjörðum. Stefna fyrirtækisins er að byggja upp umhverfisvænt eldi í sem mestri sátt við vistkerfi framleiðslusvæða. Félagið er með umhverfisvottunina AquaGap á framleiðslu og vinnslu sinni, en vottunin gerir kröfur um sjálfbærni og rekjanleika.

Ennfremur segir að ætlanir gera ráð fyrir að árleg framleiðsla verði um 10.000 tonn í Seyðisfirði. Hafrannsóknastofnun hefur gefið út burðarþolsmat fyrir Seyðisfjörð upp á 10.000 tonna lífmassa, en einnig hefur stofnunin gert tillögu til ráðherra að áhættumati fyrir Seyðisfjörð. Þar er gert ráð fyrir að ala megi allt að 6.500 tonn af frjóum laxi í firðinum.

Fiskeldi Austfjarða mun sækjast eftir að ala 6.500 tonn af frjóum og 3.500 tonn af ófrjóum eldislaxi í samræmi við fyrirliggjandi tillögur.

Fiskeldi Austfjarða hefur þegar starfsemi í tveimur fjörðum, þ.e. Berufirði og Fáskrúðsfirði. Félagið hefur rekstrar- og starfsleyfi í báðum fjörðunum og er heimilt að ala 9.800 tonn af laxi í Berufirði og 11.000 tonn í Fáskrúðsfirði.

Í Seyðisfirði verða fjögur eldissvæði, þ.e. í Selstaðavík, Sörlastaðavík, Skálanesbót og Háubökkum. Þrjú verða nýtt að jafnaði, en Háubakkar verða til vara.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.