Framsókn og Fjarðalisti búin að ná saman um meirihluta

Framsóknarflokkur og Fjarðalisti hafa lokið viðræðum um myndun meirihluta í bæjarstjórn Fjarðabyggðar með samkomulagi. Skrifað verður undir það í næstu viku.

„Við erum búin að ná saman um myndun meirihluta,“ staðfestir Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarflokks.

Stefnt er að formlegri undirritun og kynningu meirihlutasáttmálans fyrir fyrsta fund nýrrar bæjarstjórnar, eins og hefð hefur verið fyrir hjá síðustu bæjarstjórnum í Fjarðabyggð. Fundurinn verður í næstu viku. Ekki er búið að boða hann en hefð hefur verið fyrir fundum fyrsta og þriðja fimmtudag mánaðar.

Flokkarnir hafa átt í samtali síðan í byrjun síðustu viku og formlegum undanfarna viku. „Þetta hefur gengið vel. Við gáfum okkur góðan tíma í að ræða bæði samstarfið sem við höfum átt og verkefnin sem framundan eru. Samvinnan var góð á síðasta kjörtímabili og við vonum að hún verði það áfram.“

Samkvæmt samkomulaginu verður Jón Björn áfram bæjarstjóri, en hann tók við því á miðju síðasta kjörtímabili. Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalistans, verður formaður bæjarráðs. Framboðin munu skipta með sér forseta bæjarstjórnar og er gengið út frá því að Hjördís Helga Seljan frá Fjarðalista gegni því fyrst.

Aðspurður um helstu málefni í samkomulaginu nefnir Jón Björn uppbyggingu orkugarðs á Reyðarfirði og sýn um að Fjarðabyggð verði miðstöð orkuskipta á Íslandi, ef kostur er. Þá sé lögð áhersla á glæða íbúðamarkaðinn lífi, fræðslu- og fjölskyldumál auk fjárfestinga í höfn samhliða atvinnuuppbyggingu þar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.