Framsókn mælist með meirihluta á Vopnafirði

Framsóknarflokkurinn mælist með fimm fulltrúa af sjö í hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps í kosningakönnun Austurfréttar/Austurgluggans. Samgöngumál skipta kjósendur þar mestu máli.

Framsóknarflokkurinn mælist með rúm 57% fylgi en Vopnafjarðarlistinn 33%. Tæp 10% þeirra sem svöruðu könnuninni sögðust óákveðin.

Þetta þýðir að Framsóknarflokkurinn fengi fimm fulltrúa en Vopnafjarðarlistinn tvo. Hársbreidd vantar upp á að þriðji fulltrúi Vopnafjarðarlista felli út fimmta mann Framsóknar.

Um tuttugu manns svöruðu könnuninni, sem gerð var á Austurfrétt í síðustu viku, eða um 4% þeirra sem eru á kjörskrá. Ekki er teljandi munur á milli kynja í afstöðu þeirra til framboðanna. 63% svarenda voru karlkyns.

80% þeirra sem kusu Betra Sigtún síðast, en framboðið býður ekki fram nú, velja Framsóknarflokkinn. Allir þeir sem kusu Samfylkinguna síðast styðja Vopnafjarðarlistann nú. Nánast allir sem kusu Framsókn árið 2018 ætla að gera það aftur.

Í könnuninni var spurt hvaða málefni skiptu íbúa mestu við val á framboðslista. Þar skora samgöngumál hæst, fá 4,75 í einkunn af 5 mögulegum. Þar á eftir koma atvinnumál, heilbrigðis- og umönnunarmál, fjármál og stjórnsýsla og síðan fólkið í listanum ásamt oddvitanum. Jafnréttismál með einkunnina 3,3 og jafnréttismál með 4,3 skora lægst.

Munur er milli kynja í forgangsröðun málefna. Karlar og konur eru sammála um samgöngurnar, sem fá þó töluvert hærra vægi eða 4,88 meðal kvenna, sem telst afar hátt skor í kosningakönnunum Austurfréttar/Austurgluggans. Þar á eftir koma atvinnumál, fjármál og heilbrigðismál hjá körlum en atvinna, oddvitinn og heilbrigðismál hjá honum. Jafnréttismál fá líka töluvert hærri einkunn hjá konum en körlum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.