Forstjóri Byggðastofnunar: Hættulegt að treysta á eitt fyrirtæki

Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar, segir að skjóta verði fleiri stoðum undir atvinnulífið á Vopnafirði sem til þessa hefur verið borið uppi af sjávarútvegi. Stofnunin muni liðssinna heimamönnum við það.


„HB Grandi er vissulega sterkt fyrirtæki en það er hættulegt að treysta á eitt fyrirtæki,“ sagði Aðalsteinn á íbúafundi sem haldinn var á Vopnafirði á þriðjudagskvöld.

Forstjóri Granda tilkynnti þar að vegna niðursveiflu í uppsjávarveiðum hefði fyrirtækið ákveðið að byggja þar upp bolfiskvinnslu sem tekur til starfa í haust. Aðalsteinn sagði jákvætt að fyrirtækið væri meðvitað um hlutverk sitt í samfélaginu og hann fundið í aðdraganda fundarins að forsvarsmönnum þess væri „mikil alvara.“

Hann sagði hins vegar nauðsynlegt að efla atvinnulíf staðarins enn frekar og við það er Byggðastofnun tilbúin að styðja. Stofnunin hefur staðið fyrir átakinu brothættar byggðir sem einkum hefur verið beint að fámennum byggðarlögum með takmörkuð úrræði.

Ekki stendur til að Vopnafjörður fari inn í það átak en þar séu hins vegar ýmis tæki sem nýtist. Eitt slíkt sé íbúaþing þar sem íbúar greini stöðuna sjálfir og bendi á tækifæri og hét Aðalsteinn því að slíkt þing yrði haldið á Vopnafirði í apríl eða maí.

Aðalsteinn sagði að til þessa hefði ekki verið horft á Vopnafjörð sem brothætta byggð. Málefni samfélagsins hefðu verið rædd en engin bráðahætta talin steðja að. Hreppurinn hafi til dæmis haldið hlut íbúafjölda sínum betur en margir aðrir sambærilegir. Aðstæður geti hins vegar breyst skyndilega.

Byggðin hafi hins vegar ákveðna veikleika. Íbúar séu að eldast og vegna fjarlægðar eigi íbúar þar ekki kost á að sækja vinnu annað.

Byggðastofnun hefur einnig haft til umráða sérstakan kvóta til viðbótar við hefðbundinn byggðakvóta. Honum er úthlutað eftir greiningu stofnunarinnar til 3-5 ára í senn og hefur að sögn Aðalsteins virkað vel.

Aðalsteinn vildi ekki svara spurningum um Vopnafjörður gæti fengið þann kvóta. Til að það væri möguleiki þyrfti Alþingi að samþykkja að veita meiri kvóta í verkefnið. Búið sé að ráðstafa þeim 4000 þorskígildistonnum sem stofnunin hafi til umráða.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.