Forgangsmálið í dag að hemja olíumengunina

Vonast er til að lítil röskun verði á starfsemi Stöðvarfjarðarhafnar þar sem togarinn Drangur ÁR-307 sökk í morgun. Áfram er keppst við að tryggja að olía leki ekki úr tönkum skipsins.

„Það er alltaf slæmt þegar svona gerist en ég er ánægður með viðbrögðin,  bæði hjá okkar starfsfólki og öðrum sem komu að málum í dag,“ segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, en hann gegnir jafnframt embætti hafnarstjóra.

Drangur sökk óvænt um klukkan átta í morgun þar sem skipið var bundið við bryggju á Stöðvarfirði. Síðan hefur allt kapp verið lagt á að hemja útbreiðslu olíumengunar frá skipinu. Kafarar úr varðskipinu Þór köfuðu í skipinu í dag og reyndu að þétta öndunargöt við olíutankana þaðan sem mestur lekinn virtist komast.

Dregnar voru út olíugirðingar og settar út mengunarvarnapylsur sem sugu í sig olíuna. „Fjarðabyggðarhafnir eiga búnað í öllum höfnum til að takast á við mengunaróhöpp og síðan er búnaður sóttur annað eftir sem þarf. Við er ágætlega tækjum búin og mannskapurinn vann þetta mjög vel.“

Jón Björn segir að töluverð olía hafi lekið úr skipinu en vonast til að hún hafi ekki farið langt frá því. „Við sáum flekki í kring og það er öruggt að einhver olía hefur komist framhjá vörnunum. Það kemur betur í ljós næstu daga.“

Verktaki á vegum tryggingafélags útgerðarinnar er væntanlegur til Stöðvarfjarðar um klukkan 18 í kvöld og mun halda áfram verki Landhelgisgæslunnar. Hann mun síðan kanna nánar ástand skipsins en ekki hefur unnist tími til að athuga í dag hvað olli óhappinu.

Í framhaldinu verður byrjað að reyna að koma skipinu upp úr höfninni en vænta má þess að það taki nokkra daga. Jón Björn vonast til að lítil röskun verði á starfsemi hafnarinnar á meðan. „Aðrir bátar eiga leið framhjá sem skipið liggur en við reynum að festa það tryggilega. Við eigum að geta þjónustað viðskiptavini áfram þannig að til skamms tíma á þetta ekki að hafa áhrif á höfnina. Við höfum mestar áhyggjur af umhverfismálunum og þess vegna hefur allt kapp verið lagt við þau í dag.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.