Flýting grásleppuveiða ekki endilega jákvæð fyrir Austurland

Ákvörðun Matvælaráðuneytisins að leyfa grásleppuveiðar frá 1. mars, tæpum þremur vikum fyrr en upphaflega stóð til, kemur sér ekki endilega vel fyrir austfirska smábátaeigendur. Upphaflega stóð til að veiðar hæfust 20. mars en seint í febrúar var tilkynnt að þeim yrði flýtt.


Breytingin er tilkomin vegna óska Landssambands smábátaeigenda enda sé sérstaklega stór markaður erlendis fyrir grásleppuhrogn fram að páskum eða svo og afurðaverð í töluverðum hæðum fram að þeim tíma. Sökum þess hve páskar koma snemma þetta árið hafi verið hætta á að smábátasjómenn missi drjúgan spón úr aski sínum ef veiðar hæfust jafn seint og upphaflega var gert ráð fyrir.

Ráðuneytið féllst á þennan málatilbúnað smábátaeigenda en Oddur Villhelm Jóhannsson, formaður Félags smábátaeigenda á Norðausturlandi, segir þetta ekki endilega góðar fréttir hvað Austurland varði. Vissulega sé afurðaverð gott um þessar mundir erlendis en það mun breytast um leið og afli fer að berast að landi í magni og þar geti Austurland verið eftirbátur annarra sökum veðra og vinda svo snemma árs.

„Hvort þessi breyting er til góðs fer allt eftir ýmsum óvissuþáttum og þar er veðurfarið stærsta breytan. Grásleppuveiðar má segja að séu nokkurs konar ólympíuveiðar að því leytinu til að þær ganga út á að fyrstir koma, fyrstir fá. Lögmálið er að það er alltaf bardagi um að vera fyrstir á miðin, fyrstir að leggja net og verða þannig jafnframt fyrstir til að fá sem hæsta verð fyrir afurðina áður en markaðurinn hrynur.

Gallinn er að mínu mati að við hér fyrir austan erum hvað verst sett í að hefja veiðarnar svona snemma. Grásleppan er almennt ekki í miklu magni hér á svæðinu á þessum tíma og það sérstaklega því norðar sem dregur. Það svæði er yfirleitt að gefa mun meira og betur þegar lengra á líður og veðráttan breytist til batnaðar. Norðanáttin getur verið grimm og lemur á mjög oft hér langt fram á veturinn og svo tekur við austanþokan og hangir hér hálft sumarið. Suðaustanáttin er oft ríkjandi líka á þessum tíma og hún hér beint upp á grásleppumiðin allt upp á Langanesið. Til samanburðar er suðaustanáttin alveg kjörin fyrir norðan land og bara hægviðri og algjör draumur á öllu því svæði. Þetta hefur mun meiri áhrif hér en víðast annars staðar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.