„Flugsamgöngur eiga í raun að vera okkar lestarkerfi“

Miðstjórn Ungs Austurlands hefur sent frá sér ályktun og fagnar því að stjórnvöld hafi sett fram tilögur til að gera innanlandsflug að aðgengilegri samgöngukosti. Samtökin telja að innanlandsflug ætti að flokka sem almeningssamgöngur og líta á hina „skosku leið“ sem skref í rétta átt til að jafna lífsgæði fólks úti á landi.



„Við getum ekki lagt nógu mikla áherslu á mikilvægi þess að flugsamgöngur verði almenningssamgöngur á Íslandi, flugsamgöngur eiga í raun að vera okkar lestarkerfi. Við höfum fulla trú á því að þetta verði að veruleika fyrst þetta er komið fyrir þingið og í umræðu þar,“ segir Sigurður Borgar Arnaldsson, gjaldkeri félagsins.

Í ályktuninni segir; „Ungt Austurland hefur þó áhyggjur af því að þessi leið ein og sér sé ekki til þess fallin að vera hvetjandi fyrir uppbyggingu atvinnulífs á Austurlandi. Með skosku leiðinni eru einstaklingum settar þröngar skorður um hvers konar þjónusta sé sótt við nýtingu niðurgreidda flugfargjalda en til að auka samkeppnishæfni fjórðungsins þarf að finna leið til að koma til móts við lítil fyrirtæki sem eru í þróunnarvinnu á Austurlandi.

Ungt Austurland hvetur til þess að samhliða því sem innanlandsflug verði gert aðgengilegra verði sett fjármagn í að kolefnisjafna það. Almenningssamgöngur eru mikilvægar, innanlandsflug á að vera almenningssamgöngur en það er samt mikilvægt að huga að umhverfisáhrifum þess. Til að hægt sé að nýta öll þau fjölmörgu tækifæri sem felast í búsetu á Austurlandi verða samgöngur við höfuðborgina að vera bæði einfaldar og ódýrari en raunin er í dag.“

Vilja standa vörð um frumkvöðlastarfsemi
Sigurður Borgar segir að í tilkynningu sem félagið fékk í hendurnar frá Austurbrú segi að flug verði einungis niðurgreitt fyrir einstaklinga sem ætla að sækja persónulega þjónustu á borð við menningarviðburði, sjúkrahúsheimsóknir, menntun eða fara í heimsókn til vina og ættingja. Það sama muni ekki gilda ef farið er í viðskiptaerindum, til dæmis til að hitta lánadrottna, fjárfesta eða ráðgjafa, þá sé ekki boðið upp á niðurgreiðslu.

„Sem hagsmunasamtök ungs fólks þá sjáum við það virka sem hindrun við frumkvöðlastarfsemi hjá fámennum fyrirtækjum og einyrkjum. Við erum ekki að tala fyrir því að niðurgreiða ætti flug til stærri fyrirtækja en rýmka niðurgreiðslur til ungs fólks em er að koma undir sig fótununum og styrkja þannig byggð á Austurlandi,“ segir Sigurður Borgar.

Þarf að vinna að Parísar-samkomulaginu
Varðandi hugmyndir um kolefnisjöfnun segir Sigurður Borgar; „Í umræðunum sem fram fóru á fundinum komu fram áhyggjur að því að „skoska leiðin“ gæti leitt til þess að flugferðum myndi fjölga á ósjálfbærann hátt, en einnig komu fram þau rök að þetta ætti eftir að leiða til betri sætanýtingar og þar með gera innanlandsflugið umhverfisvænna að því leiti að ekki væri verið að brenna eldsneyti við að flytja hálftómar flugvélar.

Eitt að því sem allir voru samt sammála um er að við þurfum að vinna í því að ná markmiðum Parísar-samkomulagsins og að taka ætti tillit til innanlandsflugsins í því samhengi. Hið opinbera stefnir að því að auka fjárframlög til kolefnisjöfnunar, til dæmis með aukinni gróðursetningu trjáa, endurheimt votlendis og orkuskiptum. Með því að nefna þatta í ályktun okkar erum við einungis að minna á að hafa ber þetta í huga og til að markiðum lotlagssáttmálans verði náð þarf að skoða alla hluti sem að menga, þar með talið flugsamgöngur.“








Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.