Flugferðum verður fjölgað á ný

Til stendur að fjölga flugferðum milli Reykjavíkur og Egilsstaða um leið og byrjað verður að aflétta takmörkunum samkomubanns. Slíkt mun auka almennt öryggi Austfirðinga en getur þó líka aukið smithættu.

Þetta kemur fram í tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarnanefndar Austurlands í dag.

Svo virðist sem flugfarþegum sé að fjölga á ný, bæði til og frá Austurlandi. Sem stendur er flogið þrjá daga í viku en eftir 4. maí er stefnt að daglegum ferðum.

Aðgerðastjórnin fagnar þessum breytingum enda séu samgöngur mikilvægar, ekki síst út frá öryggissjónarmiði. Hún vekur hins vegar athygli á að hreyfingar á fólki milli landshluta geti aukið möguleikann á smiti.

Íbúar eru því hvattir til að fylgja öllum leiðbeiningum um smitvarnir. Þótt ekkert virkt smit sé þekkt á Austurlandi eru enn virk smit á landinu og ástandið því viðkvæmt, líkt og það hefur verið frá því að fyrsta smitið greindist hérlendis í lok febrúar.

„Tölum saman, áréttum mikilvægi árvekni sem fyrr, fylgjum tveggja metra reglunni og notum handþvott og spritt samkvæmt leiðbeiningum,“ segir í tilkynningunni.

Fjórir eru í sóttkví, líkt og í gær.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.