Flug milli Akureyrar og Keflavíkur jákvætt fyrir Austfirðinga

Verkefnastjóri flugmála hjá Austurbrú segir það jákvæða þróun að hafið sé beint flug milli Akureyrar og Keflavíkur í tengslum við millilandaflug. Það sé bæði hentugt fyrir íbúa og stuðli að dreifingu ferðamanna.


„Við teljum þetta mjög jákvætt og styðjum Norðlendinga heilshugar í þessari uppbyggingu,“ segir María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú.

Aðfaranótt föstudags var farin fyrsta ferðin en gert er ráð fyrir allt að sex ferðum í viku á veturna og tvisvar á sumrin. „Við vonum að þetta gangi vel þannig að Egilsstaðir komi til greina sem næstu áfangastaður,“ segir hún.

Icelandair skoðaði vorið 2014 alvarlega sambærilegt flug milli Egilsstaða og Reykjavíkur en af því hefur ekki orðið enn. María telur flugið vel nýtast íbúum. „Það er einfaldara að keyra á Akureyri og geyma bílinn þar heldur en fara suður og þurfa að gista.“

María bindur vonir við að nýja flugleiðin verði til að dreifa ferðamönnum betur um landið. Til þess þurfi að vanda til verka í markaðsstarfi. „Það skiptir langmestu máli að leggja púður í að kynna svæðinu og við treystum á að það verði unnið vel með markaðsstofum bæði Austurlands og Norðurlands.“

Austfirðingarnir eru þegar byrjaðir að benda sínum viðskiptavinum á flugið til Akureyrar. „Við höfum nefnt þetta við þá sem eru að skoða Austurland á þeim ferðasýningum sem við höfum verið á.“

Skili flugið fleiri ferðamönnum setur það einnig þrýsting á fleiri stofnanir og nefnir þar sérstaklega vegagerðina. „Það þarf að ryðja Dettifossveg og fleiri leiðir. Það má ekki gerast að ferðamennirnir lendi á Akureyri en komist svo ekki á staðina.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.