Fljótsdalshérað stofnaðili að félagi um kaup á Grímsstöðum: Atvinnumál fyrir sveitarfélagið

huang_nubo.jpg

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkti í gær að sveitarfélagið yrði aðili að GáF ehf. sem undirbýr kaup á Grímsstöðum á Fjöllum með það að augum að leigja það til kínverska fjárfestisins Huang Nubo. Einu atkvæði munaði í atkvæðagreiðslu þar sem minnihlutinn greiddi atkvæði gegn tillögunni. Hann gagnrýnir hraða vinnunnar og skort á upplýsingum. Fulltrúar meirihlutans segja lykilatriði að vera með til að hafa greiðan aðgang að upplýsingum.

 

„Okkur er einfaldlega ekki stætt áð standa utan við þetta því tækifærin eru svo mikil. Þetta er atvinnumál fyrir Fljótsdalshérað,“ sagði Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs og oddviti Á-lista, á fundinum í gærkvöldi.

„Ég er fylgjandi því að við tökum þátt í verkefninu, hvernig sem því kemur til með að reiða af. Þetta er næsta jörð við Fljótsdalshérað,“ sagði Gunnar og benti á að ferðaþjónusta á Grímsstöðum gæti aukið umferð um flugvöllinn á Egilsstöðum og skapað vinnu fyrir verktaka og íbúa sveitarfélagsins.

Bæjarstjórnin staðfesti í gær undirritun Stefáns Boga Sveinssonar, forseta bæjarstjórnar, á stofnskjöl GáF ehf. og skuldbindingu á greiðslu hlutafé að fjárhæð 100.000 krónur. Féð er tekið af óráðstöfuðu fé atvinnumálasjóðs sem verður til við eigna sjóðsins. Gangi það ekki eftir verður það tekið af höfuðstól. Tilgangur félagsins eru möguleg kaup og útleiga á hluta á jörðinni Grímsstaðir á Fjöllum. 

Fullt af „dúbíus“ hlutum

Fulltrúar minnihlutans gagnrýndu hversu hratt málið hefði verið unnið á vegum sveitarfélagsins og kölluðu eftir meiri og betri upplýsingum. Þeir lýstu einnig efasemdum sínum um forsendur verkefnisins.

„Þetta er verkefni sem mér líst ekkert á,“ sagði Árni Kristinsson, bæjarfulltrúi Héraðslistans. „Það vakna alltaf fleiri spurningar eftir því sem maður leitar sér upplýsinga. Það er fullt af hlutum sem virka „dúbíus“.“ Árni nefndi að upplýsingar vantaði um skipulagsmál og afnot annarra landeigenda,sem ekki ætla að selja sinn hlut, af svæðinu.

„Mér hefur fundist lögð áhersla á að sveitarstjórnir taki ekki beinan þátt í uppbyggingu á atvinnurekstri og þetta er á mjög gráu svæði,“ sagði Sigrún Blöndal, einnig Héraðslistanum. „Við höfum fengið talsverðar ákúrur fyrir að leigja húsnæði og framleigja til veitingarekstrar og nágrannasveitarfélag okkar hefur verið gagnrýnt fyrir að byggja upp gistiaðstöðu á fjöllum. Ég sé ekki að við séum betur sett með að hoppa á þennan vagn.“

Skyldug til að nýta tækifærin

Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar úr Framsóknarflokki, sagði „nauðsyn“ að vera með í félaginu til að geta fylgst með framvinu mála og fengið sem fyllstar upplýsingar. 

„Með því að stofna félagið er ekki búið að ákveða að kaupa landið sama hvað það kostar. Það eru fjöldamörg atriði sem er eftir að greiða úr og okkur mun gefast tími til að vinna.

Við höfum á borðinu ákveðnar hugmyndir og til að vinna þeim brautargengi er ákveðin nauðsyn að stofna félag . Þetta er mjög spennandi verkefni sem gæti skapað mjög mikla atvinnu í þessu sveitarfélagi,“ sagði Stefán og ítrekaði að það væri „nánast hægt að segja að það sé skylda okkar gagnvart íbúum og fyrirtækjum í sveitarfélaginu að nýta tækifærið.“

Alltaf sé hægt að hætta við lítist mönnum ekki á þær brautir sem verkefnið stefnir á. „Við getum horfið frá þátttöku ef okkur sýnist sem svo að það sé verið að fara á þær brautir sem við teljum ósæskilegar. Svo getur verið að ekkert verði úr verkefninu.“

Ekki flugumaður kínverska kommúnistaflokksins

Hann gagnrýndi þann veg sem umræðan sé farin í. Að þeir sem styðji verkefnið geri það fyrir eigin hag. Þá gagnrýndi hann orð Þórs Saari, þingmanns Hreyfingarinnar um veikt lýðræðislegt umboð sveitarstjórnarmanna.

„Ég er ekki flugumaður kínverska kommúnistaflokksins og mun ekki fá neinar greiðslur ef verkefnið fer í gegn. Ég er sannfærður um að það sé enginn hér inni sem gerir það. Það er hins vegar slæmt að þeir sem eru tilbúnir að skoða málið séu sakaðir um að annarleg sjónarmið ráði för. Lýðræðislegt umboð sveitarstjórna er ekkert veikara en umboðs þingmanna, nema síður sé.“ 

Af hverju var ríkið ekki búið að kaupa?

Á fundinum sköpuðust umræður um að erlendan aðila hefði þurft til að koma augu á þau tækifæri sem lægju í víðernunum á Fjöllum. Við það tækifæri gagnrýndi Sigrún Blöndal ríkið fyrir að hafa ekki nýtt sér tækifæri til að kaupa jörðina á meðan hún fékkst á lægra verði, en hún hefur verið til sölu í rúm tíu ár.

„Það er óskiljanlegt af hverju ríkið var ekki löngu búið að kaupa jörðina á meðan hún fékkst á eitthvað slikkerí miðað við hvað menn hafa lagt á sig til að ná til sín landi með að láta dæma í þjóðlendumálum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.