Fleiri sýna Rafveitu Reyðarfjarðar áhuga

Íslensk orkumiðlun hefur óskað eftir að fá að gera tilboð í hluta eigna Rafveitu Reyðarfjarðar. Ákvörðunar um sölu á Rafveitunni er að vænta á bæjarstjórnarfundi í dag.

Samkvæmt fundargerð bæjarráðs, sem hittist klukkan þrjú í dag, lá fyrir fundinum bréf frá Íslenskri orkumiðlun, dagsett í gær, þar sem óskað er að fá að gera tilboð í þær eignir Rafveitu Reyðarfjarðar sem ráðgert er að Orkusalan kaupi í tengslum við sölu á Rafveitunni.

Í bókun bæjarráðs segir að ráðið geti ekki tekið afstöðu til erindisins þar sem það hafi komið fram eftir að söluverð til Orkusölunnar var ákveðið og birt opinberlega.

Það var á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku. Orkusalan hefur boðið 130 milljónir í raforkuviðskipti Rafveitunnar og virkjun hennar í Búðará.

Á fundinum var einnig undirbúin ákvarðanataka um sölu Rafveitunnar, í kjölfar íbúafundar sem haldinn var á Reyðarfirði í gær. Þar voru lagðir fram tíu tölvupóstar sem borist hafa bæjarfulltrúum og bæjarskrifstofu þar sem fyrirhugaðri sölu er mótmælt. Ákvörðuninni var vísað til fundar bæjarstjórnar sem hefst nú klukkan fimm.

Gert hefur verið ráð fyrir að Orkuveitan og Rarik skipti með sér Rafveitunni þannig að Rarik eignist dreifikerfið og einkarétt á dreifingu rafmagns í þéttbýlinu á Reyðarfirði. Í þann hluta hefur Rarik boðið 440 milljónir og er samanlagt söluandvirði 570 milljónir.

Á íbúafundi á Reyðarfirði lýstu bæjarfulltrúar og æðstu embættismenn Fjarðabyggðar þeirri skoðun sinni að rekstrargrundvöllur Rafveitunnar væri brostinn eftir að Landsvirkjun sagði upp þjónustusamningi um að sjá um áætlanagerð og dagleg innkaup á rafmagni, en í gegnum samninginn fara 95% þeirrar raforku sem Rafveitan selur áfram. Eftir að samningnum var sagt upp leitaði Fjarðabyggð til Rarik og Orkusölunnar um kaup á Rafveitunni.

Á fundinum í gær var spurt hvort leitað hefði verið leiða til að hámarka söluandvirðið. Þau svör fengust að sölumöguleikar dreifikerfisins væru takmarkaðir því lögum samkvæmt yrði það að vera í eigu aðila sem væri að lágmarki í 50% eign opinbers aðila. Að auki hefði verið leitað leiða til að nýir eigendur gætu þjónustað Reyðfirðinga. Hærra söluverði yrði líklega velt yfir á neytendur. Fram kom á fundinum að ákvæði væri í samningum Orkusölunnar um lækkun verðs í hlutfalli við minni viðskipti ef Reyðfirðingar mótmæltu sölunni með að flytja raforkuviðskipti sín annað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.