Fleiri en eitt hundrað konur tóku þátt í stofnun Austurlandsdeildar FKA

Fleiri en eitt hundrað konur, af Austurlandi og víðar, sóttu stofnfund Austurlandsdeildar Félags kvenna í atvinnulífinu sem haldinn var í Vök baths í síðustu viku.

„Markmiðið er að efla konur, stuðla að auknu samtali kvenna á milli, fjölga tækifærum kvenna í atvinnulífinu á Austurlandi ásamt því að tengjast öðrum félagskonum FKA óháð staðsetningu,“ segir Heiða Ingimarsdóttir ein skipuleggjenda stofnfundarins í tilkynningu.

„Í lok ársins 2012 flutti ég í burtu og fór að mennta mig. Ég kom aftur í mars í fyrra. Það sem ég tók eftir þegar ég snéri til baka er sá ótrúlegi kraftur og sköpunargleði sem einkennir konur á svæðinu. Þær eru duglegar að búa sér og öðrum til tækifæri og styðja hver við aðra.

Það eina sem mér fannst vanta var vettvangur sem bindur okkur saman og þá af öllu Austurlandi, ekki bara konur á Héraði eða bara á fjörðunum. Leggja áherslu á þá styrkleika sem konur á svæðinu hafa og tengja konur saman svo þær geti nýtt styrkleika sína, innsýn og þekkingu saman. Við erum svo mikli sterkari sem ein heild, því þar verða galdrarnir til.

Unnur Elva Arnardóttir, formaður FKA, segist ánægð með þátttökuna. „Við komum ekki að tómum kofanum skal ég segja ykkur. Þetta heppnaðist rosalega vel og við þökkum öllum konum kærlega vel fyrir þátttökuna,“ segir Unnur Elva Arnardóttir formaður FKA sem mætti á fundinn ásamt Andreu Róbertsdóttur framkvæmdastjóra FKA.

„Móttökurnar voru frábærar, mætingin mjög góð og ánægjulegt að sjá fjölbreyttan hóp kvenna á Austurlandi streyma á fundinn,“ segir Sigrún Jóhanna Þráinsdóttir sem sæti á í fyrstu stjórn Austurlandsdeildarinnar.

Leggja línurnar fyrir starfið framundan


„Nú er það kvenna á öllu Austurlandi að ákveða hversu bratt þær mæta í fjörið í FKA en næstu skref er að hrista hópinn saman og efla tengslin, svo koma þær af krafti í starfið hjá félaginu sem er bæði blómlegt og fjölbreytt,“ bætir Andrea við.

Framundan er vinna við að kortleggja tækifæri á svæðinu öllu, greina þarfir og konur sem vilja bætast í hópinn á Austurlandi eru hvattar til að skrá sig til leiks á heimasíðu FKA og láta til sín taka.

„Athafnakonur, stjórnendur og leiðtogar úr öllum greinum atvinnulífsins mynda þétt og öflugt tengslanet FKA um land allt. Við erum konur á Íslandi, erum alls konar og búum vítt og breytt um landið. Það sem öllu skiptir er að við eflum okkur og setjum okkur á dagskrá því það er dapurt að eldast í eftirsjá og biturleika yfir að hafa ekki gert eitt og annað. Ef þú vilt hafa áhrif á samfélagsumræðuna, láta til þín taka í nærsamfélaginu, miðla og móta samfélagið í heild þá er þátttaka í FKA frábær leið til þess. Margir verndandi þættir fylgja félagaaðild og saman erum við sterkari líkt og konur á Austurlandi koma nú til með að upplifa á eigin skinni,“ segir Heiða.

Fyrsta stjórnin


Fyrsta stjórn FKA Austurlands var kjörin á fundinum. Í aðalstjórn eru Agla Heiður Hauksdóttir, ráðgjafi, Heiða Ingimarsdóttir, verkefnastjóri upplýsinga- og kynningamála hjá Múlaþingi, Jóhanna Heiðdal hótelstjóri Hótel Héraðs, Ragna S. Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri Íslensks dúns, Rebekka Rán Egilsdóttir, yfirmaður verktakaþjónustu hjá Alcoa í Evrópu, Sigrún Jóhanna Þráinsdóttir, framkvæmdastjóri hjá 701 Hotels og Valdís Björk Geirsdóttir, eigandi snyrtistofunnar Draumeyjar. Í varastjórn eru Jóna Björt Friðriksdóttir, sérfræðingur hjá Vinnueftirlitinu og Hrafndís Bára Einarsdóttir, hótelstjóri á Hótel Stuðlagili.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.