Fjöldi dauðra svartfugla í fjörum á Austfjörðum

Starfsmenn Náttúrustofu Austurlands hafa fundið töluverðan fjölda af dauðum svartfuglum í fjörum á Austfjörum í vikunni. Flestir hafa þeir verið mjög horaðir.

Fjallað er um málið á vefsíðu Náttúrustofunnar. Þar segir að í vikunni tóku fréttir að berast af dauðum svartfuglum í fjörum á Austfjörðum. Þriðjudaginn 12 janúar fóru starfsmenn Náttúrustofunnar á stúfana og könnuðu fjörur frá Berufirði að botni Reyðarfjarðar. Alls fundust hræ 273 svartfugla, mest álkur, langvíur og haftyrðlar.

„Hræin voru flest orðin nokkuð skorpin og velkt en af þeim fuglum sem voru nokkuð heilir mátti meta að flestir, þó ekki allir, fuglanna voru mjög horaðir,“ segir á vefsíðunni.

„Rannsóknir benda til þess að sjófuglar eigi erfitt með að afla sér fæðu þegar veður eru válind og felliatburðir þar sem þúsundir jafnvel tugir þúsunda sjófugla rekur á land eru þekktir1. Veturinn 2001 - 2002 varð einn slíkur fellir hér við land og var þá áætlað að tugir þúsunda svartfugla hafi horfallið í hafinu vestur, norður og austur af Íslandi. Ekki er þó loku fyrir það skotið að einhverjir fuglanna sem nú rekur á land hafi drepist af öðrum orsökum, t.d. hafi einhverjir særst af völdum veiða en mikil svartfuglaveiði hefur verið á Austfjörðum í haust og í vetur.“

Einnig er nefnt að möguleiki er, þó lítill sé, á að sjúkdómar á borð við fuglaflensu geti valdið slíkum fjölda-dauða og því ráðlegast að fara að öllu með gát og ekki handleika sjórekna fugla. MAST hefur fengið sýni til rannsókna en Náttúrustofan fylgist áfram með ástandinu og óskar frekari fregna ef fólk er á ferli og verður vart við dauða eða deyjandi fugla í fjörum. 

Mynd: na.is/SGÞ

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.