Fjölbreytt verkefni hlutu styrki á Borgarfirði

Alls hlutu fimmtán verkefni á Borgarfirði styrki úr frumkvæðissjóði Brothættra byggða fyrir sveitarfélagið í ár, en styrkveitingin fór fram á íbúafundi á dögunum. Að mati þeirra sem koma að verkefninu hefur vinnan undir hatti Brothættra byggða skilað miklum árangri nú þegar.

Alls var 14,4 milljónum úthlutað í þetta sinn og runnu fjármunir til 15 fjölbreyttra verkefna en alls var sótt um 35 styrki. Kom fram í máli fulltrúa Byggðastofnunar að flóra verkefna og fjöldi þeirra væri með mesta móti ef horft væri til sambærilegra átaksverkefna og ríkir mikil ánægja með framgang Borgarfjarðarverkefnisins, sem nefnist Betri Borgarfjörður.


Böð, bús, belgur og bíldekk

Stærsta einstaka styrkinn, 5 milljónir króna, hlaut Borgarfjarðarhreppur til verkefnisins Samfélagsmiðstöðin Fjarðarborg. Markmið þess er að ráðast í endurbætur og breytingar á félagsheimilinu Fjarðarborg til að það nýtist betur árið um kring og geti hýst fjölþætta starfsemi. Er þar meðal annars horft til skrifstofuaðstöðu sem einstaklingar geta leigt til að sinna verkefnum í fjarvinnu, líkamsræktaraðstöðu og endurnýjunar og viðhalds á ýmsum hlutum hússins.

Gistiheimilið Blábjörg hlaut samtals 2 milljónir króna, annars vegar til þróunar á náttúruböðum og hins vegar til að koma á fót framleiðslu á handverksgini. Sporður hf. hlaut styrk upp á 1 milljón til að fjárfesta í tækjum til að framleiða bitafisk og Ungmennafélag Borgarfjarðar sömu fjárhæð til að koma upp svonefndum ærslabelg á staðnum. Þá hlaut Jón Helgason styrk upp á 900 þúsund til að koma upp aðstöðu til bíla- og dekkjaviðgerða á Borgarfirði, nokkuð sem ekki hefur verið til staðar á staðnum fram að þessu.


Margt hefur áunnist

Í fréttatilkynningu frá íbúafundinum kemur meðal annars fram að mikill árangur hefði náðst með verkefninu Betri Borgarfjörður og að mörg þeirra markmiða sem sett hefðu verið fram í upphafi þess, árið 2018, hefðu þegar náðst að hluta til eða öllu leyti. Er þar nefnt til sögunnar að haustið 2019 hefði aftur verið ráðinn hjúkrunarfræðingur til starfa á Borgarfjörð, sem hefur nú einnig aðgang að fjarlækningatæki sem bæti heilbrigðisþjónustu við íbúa til mikilla muna. Verslun hefði verið komið á fót á ný sem fagnar um þessar mundir tveggja ára afmæli, stórstígar framfarir hafi orðið í samgöngumálum og meira sé á döfinni, ný fyrirtæki hefðu sprottið upp á staðnum og stefnt sé að byggingu tveggja nýrra parhúsa á staðnum þar sem verði leiguíbúðir.

Á fundinum var farið yfir markmið og stöðu verkefnisins og íbúum gafst færi á að bæta við nýjum markmiðum og endurskoða þau sem fyrir eru. Þá sendi fundurinn frá sér ályktun um sjávarútvegsmál.


Heildarlisti styrkþega 2020

Blábjörg Guesthouse

Þróun á náttúrubaði

1.050.000

2020

Blábjörg Guesthouse

Vöruþróun á handverksgini

   950.000

2020

Trausti Hafsteinsson

Sumarbúðir á Borgafirði

   350.000

2020

Fjarðarhjól ehf.

Hjólaparadísin Borgafjörður

   300.000

2020

Ferðamálahópur Borgarfjarðar

Borgarfjörður fyrir þig 2020

   500.000

2020

Borgarfjarðarhreppur

Samfélagsmiðstöðin Fjarðarborg

5.000.000

2020

Minjasafn Austurlands

Skráning muna á Lindarbakka

   510.000

2020

Teikniþjónustan Jafnóðum

Nýlundabúðin

   700.000

2020

Guðrún Benónýsdóttir og Andri Björgvinsson

Hafnarhús eystra – sýningaröð

   700.000

2020

Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir

Lagasmíðar á Borgarfirði eystra

   500.000

2020

Íslenskur dúnn ehf.

Þvottur æðardúns

   750.000

2020

Jón Helgason

Bíla- og dekkjaviðgerðir

   900.000

2020

Sporður hf.

Tækjakaup til harðfiskverkunar

1.000.000

2020

Christer Magnusson

Púttvöllur

   190.000

2020

Ungmennafélag Borgarfjarðar

Ærslabelgur

1.000.000

2020

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.