Fjölfosfötin eru ekki tæknileg hjálparefni í saltfiski

kalli_sveins.jpgSaltfiskframleiðendur geta ekki falið notkun sína á fjölfosfötum undir því skyni að þau séu tæknileg hjálparefni. Þetta er skýrt í reglum Evrópusambandsins og gildir jafnt fyrir öll aðildarríki segir talsmaður sambandsins.

 

Flestir íslenskir saltfiskútflytjendur hafa notað efnin undanfarinn áratug. Þau hvíta fiskinn, varna þránun og binda vatn í honum. Frá áramótum var endanlega tekið fyrir notkunina sem samkvæmt íslenskum reglum, sem tekin eru upp í ljósi EFTA og EES sáttmálanna, hafa verið bönnuð í átta ár.

Framleiðendurnir hafa reynt að skýla sér á bakvið að efnin séu tæknileg hjálparefni, sem ekki þurfi sérstakt leyfi fyrir. Í frétt í Morgunblaðinu í dag lýsa saltfiskframleiðendur því yfir að þeir hafi áhyggjur af stöðu sinni á mörkuðum þar sem aðrir framleiðendur í norður Evrópu noti efnin enn á undanþágu. Þar er einnig ræddur sá vinkill að þau séu tæknileg hjálparefni.

Fyrir þá skilgreiningu þvertekur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

„Svo virðist sem ákveðnir framleiðendur hafi skilgreint notkun fjölfosföta í fiskafurðum sem „tæknileg hjálparefni“ til að sneiða framhjá þeirri staðreynd að það er bannað að nota fjölfosföt í tilteknum sjávarafurðum. Það er álit Framkvæmdastjórnarinnar að notkun efnanna í þesssum afurðum, þar sem þau eru bönnuð sem aukefni, uppfylli ekki kröfur um tæknileg hjálparefni,“ sagði Aikaterini Apostola, talsmaður heilbrigðis- og neytendamála hjá Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í svari við fyrirspurn Agl.is.

Hún ítrekaði að sömu reglur giltu fyrir alla kaupendur og seljendur á öllu evrópska efnahagssvæðinu.

Karl Sveinsson, útgerðarmaður á Borgarfirði, hefur ætíð neitað að nota efnin í sinn fisk og barist fyrir því að íslenskar stofnanir tryggðu að allir framleiðendur færu eftir settum reglum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.