Fjarðarheiðargöng verða í forgangi á jarðgangaáætlun

Fjarðarheiðargöng verða efst á lista nýrrar jarðgangaáætlunar sem Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, leggur fyrir Alþingi á næstu dögum samhliða endurskoðaðri samgönguáætlun. Axarvegi verður flýtt með álagningu veggjalds.

Þetta kom fram í ræðu Sigurðar Inga á haustþingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi sem haldið var á Borgarfirði um síðustu helgi.

Sigurður Ingi hefur í nokkurn tíma talað um jarðgangaáætlunina sem hann hyggst leggja fram en um helgina skýrði hann frá því helsta sem felst í henni.

„Miðað er við að jafnaði sé unnið í einum göngum á landinu á hverjum tíma. Fjarðarheiðargöng eru þar sett í forgang, í samræmi við niðurstöðu verkefnishóps um jarðgangakosti á Austurlandi. Gert er ráð fyrir að á gildistíma áætlunarinnar muni verkefnið klárast,“ sagði Sigurður Ingi en hann hefur áður sagt að gildistími áætlunarinnar verði 15 ár. Í kjölfarið á Fjarðarheiðargöngunum verði gerð göng frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar og svo áfram til Norðfjarðar.

Veggjöld til að flýta framkvæmdum

Gert er ráð fyrir að bein framlög af samgönguáætlun og jarðgangaáætlun standi undir helmingi framkvæmdakostnaðar jarðganga. Stefnt að sérstakri gjaldtöku af umferð í jarðgöngum hérlendis, sem á að fjármagna rekstur og viðhald ganganna auk þess sem vantar upp á í framkvæmdakostnað.

Sigurður Ingi kynnir tillögur sínar að endurskoðaðri samgönguáætlun á morgun en á fundinum um helgina ræddi hann fleiri verkefni sem stendur til að flýta með sérstakri gjaldtöku. Þar á meðal er ný brú yfir Hornafjarðarfljót og vegur yfir Öxi.

Þrífösun rafmagns næsta stórátak

Sigurður Ingi ræddi ýmis fleiri málefni sem tilheyra hans ráðuneyti svo sem sameiningar sveitarfélaga og sóknaráætlanir landshluta í ræðu sinni. Hann kom inn á uppbyggingu ljósleiðara í dreifðum byggðum og sagði að næsta stórátak í innviðauppbyggingu væri þrífösun rafmagns. „Það er að hluta hafið meðal annars á ykkar svæði og við fáum að heyra nánar um þau áform þegar líður á haustið.“

Þá skýrði Sigurður Ingi einnig frá stöðu almenningssamganga. Nokkur ár eru síðan landshlutasamtökum var falin umsjón með þeim á sínu svæði. Þar hefur gengið á ýmsu og er staðan nú sú að Austurland er eini landshlutinn sem samið hefur við ríkið um að vinna áfram að því markmiði að sjá áfram sjálfur um rekstur og skipulag áætlunarferða.

Hann sagði einnig að unnið væri í að tengja saman flugvellina í Keflavík og Reykjavík með ferðum strætisvagna. Þetta sé til þess að efla innanlandsflugið. Annað skref í þá átt er að niðurgreiða flugfargjöld íbúa á landsbyggðinni, sem Sigurður Ingi sagði stefnt að yrði að veruleika á næsta ári. Þá ítrekaði Sigurður Ingi að uppbygging Egilsstaðaflugvallar væru í forgangi við uppbyggingu varaflugvalla fyrir Keflavíkurvöll.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.