Fjarðabyggð fær þrjá styrki úr Framkvæmdasjóði ferðamanna

Þrír staðir innan Fjarðabyggðar hljóta styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamanna þetta árið. Aðgengi að Búðarárfossi verður bætt til muna, aðgengi að Franska kirkjugarðinum í Fáskrúðsfirði lagað og hönnun fer fram á svokölluðu Streytishvarfi 1 á Streytishorni milli Breiðdalsvíkur og Berufjarðar.

Alls sótti Fjarðarbyggð um styrki til fjögurra verkefna en Framkvæmdasjóðurinn taldi ekki tilefni til að betrumbæta aðgengi og öryggi við Bleiksárfoss. Ekki náðist í atvinnu- og þróunarstjóra Fjarðabyggðar til að fá upplýsingar um hvers vegna það verkefni hefði fengið neitun.

Við Búðarárfoss er hugmyndin að nýta fjármuni til að hanna göngustíga auk þess að byggja brú og útsýnispall við fossinn og fékkst 2,2 milljón króna styrkur í þá áætlun.

Aðgengi að Franska grafreitnum hefur löngum verið erfitt en nú fékkst tæplega níu milljóna króna styrkur til að stækka bílastæði og gera rútum fært að leggja við staðinn. Jafnframt skal endurbæta göngustíga og græða upp svæði eftir mikið álag síðustu árin.

Þá tekur Fjarðabyggð fyrir hönd Ríkiseigna að sér að hanna aðgengi að Streytishvarfi 1 en það svæði þykir gefa sérstaklega góða innsýn inn í jarðsögu Austfjarða. Þar er gamall viti og vegslóði þangað en utanvegaakstur vandamál og töluvert sér á svæðinu sem færa skal til betri vegar.

Hinn fallegi Bleiksárfoss á Eskifirði trekkir að sér töluverðan fjölda fólks en aðgengi er ábótavant. Framkvæmdasjóður vildi ekki veita fjármagni til að betrumbæta það.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.