Fjarðabyggð sýknuð af kröfu um að greiða sjúkraflutningamönnum í hlutastarfi fyrir bakvaktir
Félagsdómur hefur sýknað Fjarðabyggð af kröfu Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna um að sjúkraflutningamönnum í hlutastarfi bakvaktarálag. Dómurinn sagði kröfuna ekki eiga sér neina stoð í kjarasamningi eða sambærilegum skjölum.
Slökkvilið Fjarðabyggðar sér um sjúkraflutninga í meirihluta sveitarfélagsins. Liðið er atvinnulið en hefur einnig slökkviliðsmenn í hlutastarfi sem eru til taks ef á þarf að halda.
Þeir hafa ekki dagvinnuskyldu né eru ráðnir í starfshlutfall. Þeir sinna annarri vinnu og við niðurröðun á vaktir er reynt að taka tillit til aðstæðna þeirra. Vaktaplanið er þannig ekki gildandi.
Í kjarasamningi slökkviliðsmanna er ákvæði um bakvaktarálag en launanefndir sveitarfélaga og slökkviliðsmanna hafa allt frá árinu 2009 verið ósammála um túlkun á því hvort það nái einnig yfir hlutastarfandi slökkviliðsmenn.
Sambandið stefndi Fjarðabyggð fyrir dóminn þar sem sveitarfélagið notaði sína eigin reikniformúlu frekar en greiða álag ofan á dagvinnustund. Eins og fram hefur komið taldi Fjarðabyggð ákvæðið ekki eiga við hlutastarfandi slökkviliðsmenn og að eiginleg bakvakt í skilningi kjarasamningsins feli í sér að vinnuveitandi skipuleggi vaktirnar alfarið.
Mat dómsins var að sú skuldbinding að vera til taks þegar á þurfi að halda í óljósu hlutfalli verði ekki lögð til jafns við það þegar starfsmenn eru ráðnir í tiltekið starfshlutfall og vinna samkvæmt tiltekinni og reglubundinni vinnuskyldu.
Vissulega hafi samninganefndir rætt um bakvaktarálag hlutastarfandi slökkviliðsmanna utan dagvinnutíma en það hefur ekki verið fest í sessi í kjarasamningi eða bindandi skjölum. Engu skipti þótt tvö sveitarfélög túlki ákvæðið á annan hátt.
Fjarðabyggð var því sýknuð af kröfum sambandsins og því gert að greiða sveitarfélaginu 450 þúsund krónur í málskostnað.