Fjarðabyggð fyrsta sveitarfélag landsins í endurheimt votlendis

„Loftslagsmálin eru stærsta og brýnasta málefni jarðarinnar og því er þetta skref Fjarðabyggðar til fyrirmyndar,“ segir Eyþór Eðvarðsson, stjórnarformaður Votlendissjóðsins, en Fjarðabyggð er fyrsta sveitarfélag landsins sem mun á skipulegan hátt vinna að endurheimt votlendis. Opinn fundur verður um málið á Reyðarfirði á morgun, miðvikudag.


Fundurinn er haldinn af Votlendissjóðnum í samstarfi við Fjarðarbyggð, Náttúrustofu Austurlands og Landgræðslu ríkisins. Fundurinn er öllum opinn og verður í grunnskólanum klukkan 17:15.

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, mun setja fundinn og segja frá framlagi sveitarfélagsins inn í verkefnið. Anna Berg Samúelsdóttir umhverfisstjóri Fjarðabyggðar verður fundarstjóri. Auk Eyþórs mun Sunna Áskelsdóttir, sérfræðingur hjá Landgræðslunni stíga í pontu.

„Við þurfum samvinnu allra til að læra hvernig best er að standa að þessu“
„Með þessu er Fjarðabyggð að sýna mikla samfélagslega ábyrgð og er til fyrirmyndar. Endurheimt votlendis er öflugasta aðgerðin sem við getum farið í til að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í Fjarðabyggð eins og öðrum sveitarfélögum er töluvert af framræstu eða röskuðu votlendi sem er ekki í neinni notkun og væri hægt að endurheimta auðveldlega. Fjarðabyggð er fyrsta sveitarfélagið sem þýðir að við þurfum samvinnu allra til að læra hvernig best er að standa að þessu.

Við erum með háleit markmið en þetta verkefni er þannig að allir þurfa að vilja vera með. Stjórnendur sveitarfélagsins hafa tekið vel á móti okkur og hafa unnið með okkur að þessu verkefni frá upphafi og það er ómetanlegt fyrir verkefnið að finna þann stuðning. Það er mikið í húfi að vel takist til fyrir næstu sveitarfélög og við teljum að hér sé góður grunnur til að byrja þetta mikilvæga verkefni.“

Þrjár leiðir í boði
Eyþór segir Votlendissjóðinn ekki rekinn í hagnaðarskyni. „Sjóðurinn á allt sitt undir því að fólk leggi fé inn í hann sem verður notað til að endurheimta votlendi. Sjóðurinn mun aldrei geta staðið undir öllum kostnaðinum en á nóg til að styðja við bakið á þeim sem þurfa aðstoð til að endurheimta. Líklegt er að margir vilji standa í þessu sjálfir og fá ávinninginn af því skráðan á sig, til dæmis ferðaþjónustuaðilar eða bændur sem vilja kolefnisjafna sín svæði. Í farvatninu er að sauðfjárbændur og kúabændur fari sömu leið, en bændur geta gert það með þessu og lagt inn öll þau tonn af CO2 ígildum sem þeir stöðva. Ferðaþjónustuaðilar sem vilja sýna fram á að þeir séu raunverulega að vinna í loftslagsmálum geta fengið staðfestingu á því sem þeir geta nýtt í markaðssetningu innanlands og utan. Þrjár leiðir eru í boði; að sjóðurinn sjái um endurheimtina, landeigandinn sjái um hana eða að einhver taki að sér að endurheimta í gegnum sjóðinn hjá landeiganda.“

„Það er tilhlökkun að takast á við þetta verkefni“
Eyþór bindur vonir við að ákveðinn árangur náist strax. „Það er okkar von að við náum raunverulegum árangri í loftslagsmálum og náum að stöðva mikla losun gróðurhúsalofttegunda strax í sumar. Einnig að fá reynslu til að taka verkefnið áfram í næstu sveitarfélög. Við finnum fyrir áhuga hjá öðrum sveitarfélögum, sem er mjög gott. Það er tilhlökkun að takast á við þetta verkefni enda höfum við mætt velvild og góðum hug hjá öllum sem við höfum rætt við. Við verðum öll að leggja okkur fram við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, það hvílir á okkur sú ábyrgð að vera síðasta kynslóðin sem getur stöðvað hlýnunina,“ segir Eyþór.

Endurheimt votlendis

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.