Fjarðaál þurfti ekki að breyta miklu til að fá jafnlaunavottun

Alcoa Fjarðaál varð nýverið fyrsta stóriðjufyrirtækið sem hlýtur vottun á jafnlaunastaðli velferðarráðuneytisins. Framkvæmdastjóri mannauðsmála segir það traustvekjandi fyrir starfsfólk að vita að launaákvarðanir séu ekki teknar handahófskennt.


„Það hlýtur að vera traustvekjandi fyrir starfsfólk að fá staðfestingu á því að launaákvarðanir eru ekki handahófskenndar heldur ígrundaðar og rekjanlegar og launakerfið sannreynt með þátttöku í kjarakönnun.

Líkt og innleiðing annarra gæða- og stjórnkerfa þá stuðlar þessi vottun að því að gera vinnustaðinn betri og eftirsóknarverðari,“ segir Guðný Björg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Fjarðaáli.

Fjarðaál er eitt stærsta iðnfyrirtæki landsins með 550 starfsmenn og um 350 verktaka. Hlutfall kvenna í starfsmannahópnum er 25% sem er það hæsta sem þekkist innan álvera Alcoa.

Jafnlaunavottunin byggir á staðlinum IST 85:2012. Hann er íslenskur og unninn út frá lögum frá 2008 um jafna stöðu og rétt kvenna og karla. Í lögunum er skýrt kveðið á um að konum og körlum sem starfa hjá sama atvinnurekanda skulu greidd jöfn laun og skulu þau njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.

Vinna stjórnenda gagnsærri

Guðný segir að til að innleiða staðalinn hafi þurft að yfirfara launakerfi Fjarðaáls en ekki hafi þurft að breyta miklu. Þegar hafi verið til staðar launaflokkun þar sem störf hafa verið verðmetin.

„Það sem þurfti fyrst og fremst að gera var að uppfæra vinnulýsingar og verklagsreglur sem tengjast launakerfinu og uppbyggingu þess, launahækkunum og launaákvörðunum.

Með þessu gerum við vinnu stjórnenda gegnsærri. Með skýrari vinnulýsingum tryggjum við líka yfirferð laga sem tengjast launum og breytingum á jafnréttislögunum sem og rýni stjórnenda einu sinni á ári.“

Jákvæð áhrif á vinnustaðinn

Það var félags- og jafnréttismálaráðherra sem afhentu viðurkenningu á vottuninni. Hann lét þau orð falla að það væri til fyrirmyndar að sjá hvernig Fjarðaál setur jafnréttismál á oddinn og tekur þátt í að brjóta á bak aftur staðalímyndir á vinnumarkaði.

Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Fjarðaáls sagði í lok fundarins að það væri hluti af samfélagsábyrgð fyrirtækisins að sinna jafnréttismálum með markvissum hætti. Hann taldi það jafnframt vera ávinning fyrir fyrirtækið að fá til starfa breiðan hóp starfsfólks, konur jafnt sem karla, og að við núverandi aðstæður á vinnumarkaði gæti það gefið fyrirtækinu samkeppnisforskot.

Unnið er samkvæmt jafnréttisáætlun og meðal annars hafa breytingar á vaktakerfi fyrirtækisins miðað að því að höfða til fleiri kvenna. Einnig sagði Magnús: „Það er trú fyrirtækisins að vottun á jafnlaunastaðli muni hafa jákvæð áhrif á vinnustaðinn, byggja upp frekara traust starfsmanna og auka helgun þeirra.“

Magnús Þór, Guðný Björg og Þorsteinn. Mynd: Fjarðaál

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar