Fjallvegir mokaðir þegar veðrið gengur niður

Beðið er með allan mokstur á fjallvegum á Austurlandi þar til stórhríðin sem þar hefur geisað í nótt og morgun gengur niður. Reynt verður að hreinsa vegi á láglendi eftir sem kostur er.

Ófært hefur verið til Seyðisfjarðar, Vopnafjarðar, Akureyrar og Borgarfjarðar í morgun.

Leiðirnar voru opnaðar í gær en lokuðust aftur í gærkvöldi. Á Fjarðarheiði var rudd einbreið lína í gegn sem lokaðist aftur þegar tók að skafa um kvöldmatarleitið.

Þar snjóar enn og skefur enda vindur stöðugur um 20 m/s. Aftur má reikna með að einbreitt verði í gegn þegar opnað verður seinni partinn í dag.

„Við leggjum í fjallvegina þegar veðrið gengur niður. Það getur dregist fram eftir degi,“ segir Magnús Jóhannsson hjá Vegagerðinni í Fellabæ.

Ruðningsbíll á leiðinni inn í Hallormsstað lenti í minniháttar vandræðum í morgun. Mokað var inn í Hallormsstað og út í Eiða í morgun en lögð verður áhersla á að hreinsa alla vegi á Héraði í dag. Þar er rigning og slydda en spáð frosti í kjölfarið sem myndað getur mikla hálku ef ekki tekst að hreinsa vegina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.