Finnafjörður: Óvissu eytt með undirritun

Sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps segir undirritun samninga um stofnun tveggja félaga sem tengjast mögulegri stórskipahöfn í Finnafirði þýða að hægt verði að búa til áætlanir sem byggja á að höfnin verði að veruleika. Talsmenn hrepps og Langanesbyggðar fögnuðu undirrituninni á fimmtudag.

„Þessi dagur hefur þá þýðingu að stórt verkefni, sem getur leitt til mjög mikillar uppbyggingar í næsta nágrenni við okkur, er komið af stað. Svo verður framtíðin að leiða í ljós með hvaða hætti þetta verður.

Þetta eru stórtíðindi því það er mikil óvissa úr sögunni. Nú getum við byrjað að gera ráð fyrir þessu í okkar framtíðaráætlunum, svo sem aðalskipulagi.“

Þetta hafði Þór Steinarsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps, að segja eftir að samkomulag var undirritað milli Vopnafjarðarhrepps, Langanesbyggðar, verkfræðistofunnar Eflu og þýska fyrirtækisins Bremenports um þróun og uppbyggingu hafnsækinnar starfssemi í Finnafirði.

Þróunarfélag leitar erlendrar fjárfestingar

Tvö félög verða til við undirritunina. Annars vegar hafnarsamfélag sem verður í jafnri sveitarfélaganna tveggja, hins vegar þróunarfélagið FFPD sem aflar sérleyfishafa til að hefja starfsemi innan svæðisins. Bremenports á í því 66% hlut, Efla 26% og sveitarfélögin 4% hvort.

Í tilkynningu segir að markmið félagsins sé að vinna að uppbyggingu alþjóðlegrar stórskipahafnar, iðnaðar- og þjónustusvæðis á um 1300 hektara svæði í sunnanverðum Finnafirði. Því er heitið að uppbyggingin byggi á stoðum sjálfbærni og að staðsetning hafnarinnar, sem stytta muni siglingaleiðir milli Asíu, austurstrandar Bandaríkjanna og Evrópu, muni stytta alþjóðlegar siglingaleiðir verulega og þar með minnka útblástur kolefnis frá flutningum á sjó.

Þróunarfélagið verður með starfsmenn á sínum snærum. Ekki er ljóst hversu marga eða hvar þeir verða staðsettir. Viðræður eru í gangi um aðkomu erlends fjárfestingasjóðs um aðkomu að því síðar á árinu og ræður hún miklu um umfang starfseminnar. Aðspurður vildi Þór ekki fullyrða um hversu langt viðræðurnar væru komnar. Áður hefur verið greint frá því að rætt hafi verið við sjóð í eigu hinnar bandarísku Guggenheim-fjölskyldu.

„Starfsemin veltur á þessum samningum. Það tekur einhvern tíma að semja en ég er nokkuð bjartsýnn á að það verði fyrr en síðar,“ sagði Þór.

Færir til miðju Íslands

Engin fjárhagsleg ábyrgð á að falla á sveitarfélögin tvö. „Við höfum unnið eftir því markmiði. Þau geta ekki lent í að bera kostnað, fjárfestarnir gera það. Sveitasjóðirnir eiga aldrei að þurfa að undirgangast neitt sem verður þeim til tjóns. Að öðru leyti verður þetta í líkingu við B-hluta félög,“ segir Þór.

Þór, líkt og fleira sveitarstjórnafólk, þakkaði þá vinnu sem lögð var í samningana. „Það hafa náðst mjög góð tengsl milli aðila í samningaviðræðunum. Það er góður samhugur í hópnum þótt tekist hafi verið á,“ sagði hann.

„Við erum búin að vera í tvö ár að búa til þessa samninga. Það er algjör sannfæring mín að þeir séu gríðarlega vel unnir og í þeim séu öll þau verkfæri sem sveitarfélögin þurfa til að takast á við það sem þau geta ekki spáð fyrir um, sem er framtíðin. Ég held að við höfum góðan grunn að áframhaldandi samstarfi og uppbyggingu verkefnisins,“ sagði Elías Pétursson, sveitastjóri Langanesbyggðar.

„Það er líka sannfæring mín að þetta verkefni muni breyta Íslandi, það er svo stórt. Ég held að það sé líka gott að vera með það á hinu enda landsins, gagnvart höfuðborginni. Það muni færa miðju landsins,“ bætti Elías við.

Hann notaði tækifærið til að þakka sérstaklega Hafsteini Helgasyni frá Eflu og Robert Howe, framkvæmdastjóra Bremenports fyrir þeirra framlag. „Howe hefur verið aðalpersónan með sýn sinni, hvernig hann hefur komið að verkefninu og haft trú á því.“

Miklar væntingar til samninganna

„Væntingar okkar til þessara samninga eru miklar. Við væntum þess að í kjölfar þeirra hefjist vinna sem leiði til starfsemi í Finnafirði í nánustu framtíð. Þetta er gríðarlega stór og mikill áfangi,“ sagði Siggeir Stefánsson, fulltrúi í sveitastjórn Langanesbyggðar.

Siggeir rakti helstu áfanga í vinnu við höfnina í Finnafirði sem hann sagðist hafa hafist árið 2008 með samþykkt sveitarstjórnarinnar. Hjólin hefðu fyrst farið að snúast af alvöru árið 2012 þegar Eflu var falið að afla samstarfsaðila en í lok þess árs kom Bremenports að borðinu.

Gert er ráð fyrir að næstu 3-5 ár fari í frekari þróunarvinnu, meðal annars umhverfismat. Aðspurður segir Þór enn erfitt að spá fyrir um með hvaða hætti sú vinna birtist Vopnfirðingum. „Á Vopnafirði er mikið af góðum þjónustufyrirtækjum og hæfileikafólki sem ég geri ráð fyrir að leitað verði til. Með hvaða hætti það verður á eftir að koma í ljós.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar