Ferðagjöfin á Austurlandi mest notuð hjá Vök Baths

Vök Baths var sá staður á Austurlandi þar sem ferðagjöfin var mest notuð. Raunar var Vök Baths sá staður á landinu, utan höfuðborgarsvæðisins, þar sem gjöfin var mest notuð.

Þetta kemur fram á vefsíðunni Mælaborð ferðaþjónustunnar sem heldur utan um ýmis tölfræðileg gögn tengd ferðaþjónustu.

Alls námu viðskipti með ferðagjöfina hjá Vök Baths um 9 milljónum kr. í sumar og er staðurinn í 8. sæti á landsvísu hvað þetta varðar.

Í heildina var ferðagjöfin notuð til að kaupa þjónustu fyrir 25 milljónir kr. á Austurlandi. Því hefur rúmlega þriðjungur ferðagjafa í landshlutanum verið notuð hjá Vök Baths.

Heiður Vigfúsdóttir framkvæmdastjóri Vök Baths segir að reksturinn hafi gengið vonum framar í sumar miðað við ástandið sem skapaðist vegna COVID í vor. „Við fengum klárlega mikla aðsókn eins og fleiri fyrirtæki í ferðaþjónustunni ,“ segir Heiður í samtali við Austurfrétt.

Nýr framkvæmdastjóri

Vök Baths auglýsti eftir nýjum framkvæmdastjóra í fullt starf seinnipart sumars og rennur umsóknarfrestur fyrir stöðuna út í dag.

Heiður segir að margir hafi haft áhuga á stöðunni. Raunar hafi um 80 manns sótt um.

Aðspurð um hvað sé framundan hjá henni segir Heiður en hún sé með sitt eigið fyrirtæki, Austurför, og muni sinna þeim rekstri.

„Ég var beðin um að koma inn í Vök Baths á byrjunarstiginu 2017 og hef unnið að framgangi fyrirtækisins síðan,“ segir Heiður sem nú ætlar að einbeita sér að sínu eigin fyrirtæki.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.