Fer ráðuneytið ekki að lögum við endurskoðun stjórnunar þjóðgarða?

fljotsdalur_sudurdalur.jpgUmhverfisráðuneytið hefur ekki enn haft samráð við sveitarstjórnir á svæði Vatnajökulsþjóðgarð við vinnu að sameiningu stjórnunar þjóðgarða og friðlýstra svæða. Lög um Vatnajökulsþjóðgarð gera ráð fyrir öðru. Heimamönnum gremst þetta. Ráðuneytið segir enga ákvörðun enn hafa verið tekna um sameiningu þjóðgarðanna.

 

Í bráðabirgðaákvæði í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð segir að stjórnfyrirkomulag þjóðgarðsins skuli endurskoðað eigi síðar en 1. janúar 2013 í samstarfi ríkis og sveitarfélaga.

Heimamenn segja að með vinnu á vegum umhverfisráðuneytisins um sameiningu stjórnunar þjóðgarða og friðlýstra svæða, þar með talið Vatnajökulsþjóðgarðs, í eina stofnun, hafi verið farið á svig við þessi lög.

Í greinargerð sem unnin var fyrir ráðuneytið er lagt til að samráðshópur, sem eigi að vinna að útfærslu stofnanabreytinganna, eigi að taka til starfa í desember og ljúka störfum fyrr miðjan febrúar 2012. „Frumvarp verði afgreitt fyrir lok vorþings 2012 og að ný stofnun taki til starfa 1. janúar 2013.“

Björn Ármann Ólafsson, formaður svæðisráðs austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs, gagnrýnir þessi vinnubrögð. „Það voru sett lög um þjóðgarðinn sem tryggja áttu að engu yrði breytt nema með aðkomu þeirra sveitarfélaga sem eru á áhrifasvæði þjóðgarðsins og Alþingi væri hinn aðilinn sem kæmi að endurskoðuninni. Nú er það bara ráðuneytið sem vinnur málið með undirstofnunum og ætlar að koma þessum breytingum í gegnum Alþingi fyrir vorið án þessa samráðs.“

Undir þetta er tekið í bókun frá síðasta fundi sveitarstjórnar Fljótsdalshrepps. „ Svo virðist sem nú eigi að hunsa ákvæði um samráð og telur sveitarstjórn lík vinnubrögð ólíðandi og hvetur ráðherra til að viðhafa virkt samráð og vinna ekki að breytingum á stjórnfyrirkomulagi Vatnajökulsþjóðgarðs í andstöðu við vilja heimaaðila.“

Í svari við fyrirspurn Agl.is benti ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins, Magnús Jóhanesson, á að í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, hefði verið ákveðið að endurskoða núverandi stjórnfyrirkomulag þjóðgarðanna.

„Nú stendur nú yfir athugun á kostum þess og göllum, fýsileikakönnun, að sameina þjóðgarða landsins og friðlýst svæði undir eina stjórn. Þeirri könnun er ekki lokið og ekki enn verið tekin nein ákvörðun um sameiningu umræddra stofnana. Samráð um framtíðarfyrirkomulag þessara mála mun hafa til hliðsjónar niðurstöður þeirrar könnunar sem nú er í gangi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.