Fangelsisdómur fyrir að brjótast inn í sumarbústaði

Tveir karlmenn hafa verið dæmdir fyrir að brjótast inn sumarbústaði á Einarsstöðum í júní síðastliðnum og stela þaðan lausamunum. Annar maðurinn er dæmdur í tíu mánaða fangelsi þar sem hann braut gegn skilorði sem hann var á.

Í flestum tilfellum brutu mennirnir upp lyklabox og til að nálgast lykla þannig þeir kæmust inn í bústaðina en í eitt skiptið fóru þeir inn um opinn glugga á annarri hæð. Upp úr krafsinu höfðu þeir þrjú stór sjónvörp auk fjölda annarra raftækja.

Þá brutust þeir inn í læstan skúr á lóð eins bústaðarins og höfðu þaðan með sér trésmíðaverkfæri að verðmæti 600.000 króna. Lögreglan hafði skjótt hendur í hári þeirra og fann hjá þeim þýfið sem hægt var að koma aftur til eigenda sinna.

Eldri karlmaðurinn, ríflega þrítugur að aldri, fékk fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára en hann hefur ekki áður brotið af sér. Þá þarf hann að greiða 330 þúsund krónur í málskostnað, þar með þóknun verjanda síns.

Yngri maðurinn, sem er 25 ára, fékk tíu mánaða fangelsisdóm. Ekki þótti fært að skilorðsbinda dóminn vegna ítrekaðra brota mannsins, sem rauf skilorðsdóm frá árinu 2016 með innbrotunum. Á síðustu fimm árum hefur maðurinn hlotið sjö dóma fyrir þjófnaði, eignaspjöll, umferðarlagabrot, fíkniefnabrot og fleira.

Báðir játuðu brot sín skýlaust fyrir dómi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.