Fallist á að leyfð verði gæludýr í íbúðum í eigu Múlaþings
Viku eftir að Alþingi samþykkti lög sem formlega leyfa gæludýrahald í fjölbýlishúsum ákvað umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings að leyfa slíkt í íbúðum í eigu sveitarfélagsins.
Það var um miðjan febrúar síðasta vetur sem fyrst var óskað eftir að Múlaþing endurskoðaði reglur sínar um gæludýrahald í félagslegum og almennum íbúðum sveitarfélagsins en hingað til hefur slíkt með öllu verið óheimilt.
Bent var á að góð rök væru fyrir að leyfa slíkt; annars vegar vegna jafnræðissjónarmiða óháð fjárhag fólks en ekki síður sökum þess að sönnur hafa verið færðar á að gæludýr geta haft afar jákvæð áhrif á andlega líðan fólks og þar ekki síst skjólstæðinga félagsþjónustu af einhverju tagi.
Á þeim níu mánuðum sem liðnir eru síðan hefur málið verið sent fimm mismunandi ráðum sveitarfélagsins til umsagnar og í síðasta mánuði fékk það grænt ljós frá fjölskylduráði þaðan sem það fór áfram til umhverfis- og framkvæmdaráðs. Þar var samþykkt samhljóða í síðustu viku að veita málinu blessun þaðan líka og fól ráðið starfsmönnum sveitarfélagsins í kjölfarið að vinna að breyttum reglum vegna þessa.