Fagna lokun skrifstofunnar í Reykjavík

Svæðisráð austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs fagnar því að ákveðið hafi verið að loka skrifstofu garðsins í miðborg Reykjavíkur í hagræðingarskyni. Barist er um framtíðaraðsetur aðalskrifstofu þjóðgarðsins.

Fögnuðurinn kemur fram í bókun frá síðasta fundi ráðsins í kjölfar þess að stjórn þjóðgarðsins ákvað að segja upp húsnæði aðalskrifstofunnar að Klapparstíg í Reykjavík. Áætlað er að þannig sparist átta milljónir á ári. Henni hefur verið fundinn staður annars staðar að sinni.

Bókunin er hins vegar skref í langri sögu og baráttu um aðsetur höfuðstöðva þjóðgarðsins en víða var því illa tekið þegar höfuðstöðvunum var valinn staður í miðborginni fyrir áratug, enda þjóðgarðurinn sjálfur allur langt utan hennar.

Í bókuninni segir einnig að svæðisráðið vænti þess að lögheimili þjóðgarðarins verði flutt á skrifstofu hans í Fellabæ og jafnframt verði tryggt að skrifstofa fjármálastjóra verði áfram staðsett þar.

Einmanalegt í Fellabænum

Fyrir ári var ný skrifstofa þjóðgarðsins opnuð í Fellabæ í sama húsi og skrifstofur Hitaveitu Egilsstaða og Fella. Við sama tækifæri var tilkynnt að sú skrifstofa yrði aðalskrifstofa, nokkuð sem kom ýmsum í opna skjöldu.

Í frétt RÚV við það tilefni er haft eftir stjórnarformanninum, Ármanni Höskuldssyni, að flutningurinn verði sársaukalaus. Nýir starfsmenn á skrifstofu verði ráðnir í Fellabæ. Það hafi byrjað með fjármálastjóra og bókara auk þess sem framkvæmdastjórinn komi á þessu ári. Síðan hefur fjármálastjórinn hins vegar haft aðsetur í Reykjavík, nokkuð sem vakið hefur gremju þeirra sem fögnuðu nýju skrifstofunni mest.

Þórður H. Ólafsson hefur verið framkvæmdastjóri þjóðgarðsins frá því hann var stofnaður en hann lætur af störfum síðar á árinu vegna aldurs. Víða innan garðsins er beðið eftir hvar nýjum framkvæmdastjóra verður valinn staður, eða hvar hann kýs að vera.

Óttast að landvarsla verði undir í niðurskurði

En hræringarnar um þjóðgarðinn eru umfangsmeiri. Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur óskað eftir úttekt á fjárhag hennar vegna milljóna framúrkeyrslu á síðasta ári. Á stjórnarfundi í byrjun árs samþykkti aðalstjórn þjóðgarðsins bókun sem formaður lagði fram þar sem harmað er að framkvæmdastjórinn hafi ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni. Framkvæmdastjórinn hefur lýst því yfir að hann fagni úttektinni.

Fram hafa verið lagðar fleiri tillögur til hagræðingar, að ná niður launakostnaði, auka tekjur með sölu á varningi, hækka sértekjur og rukka bílastæðagjöld, nokkuð sem samþykkt var á síðasta ári en ekki komið í verk.

Svæðisráðin hafa nú tillögurnar til meðferðar og var afgreiðslu þeirra frestað á síðasta fundi á austursvæðinu. Ráðið bókaði hins vegar að niðurskurður á launakostnaði kunni að þýða minni landvörslu þannig að loka geti þurft svæðum auk þess sem styttur opnunartími í Snæfellsstofu rýri möguleika til að afla sértekna.

Þjóðgarðastofnun

Eitt í viðbót sem ýtir við baráttunni eru hugmyndir um Þjóðgarðastofnun. Sú stofnun ætti að taka við verkefnum þjóðgarðanna þriggja og tilteknum verkefnum á sviði náttúruverndar frá Umhverfisstofnun. Faglega kann sú hugmynd að hljóma vel en sveitarstjórnarmenn úr öllum landshornum byrjuðu strax að álykta að þeirra heimabyggð ætti að hýsa höfuðstöðvarnar.

Umhverfisráðherra skipaði í byrjun september starfshóp til að vinna að gerð lagaframvarps þar. Sá hópur átti að skila af sér niðurstöðum í byrjun nóvember. Síðan hefur verið skipt um ráðherra en sá sem nú situr hefur þó lýst yfir stuðning sínum við hugmyndina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar