Færa eftirlitsverkefni frá heilbrigðiseftirlitum sveitarfélaganna til ríkisstofnana
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. sep 2025 15:03 • Uppfært 02. sep 2025 16:34
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Hanna Katrín Friðriksdóttir, atvinnuvegaráðherra, kynntu í dag áform um stórfelldar breytingar á verkefnum heilbrigðiseftirlita sveitarfélaga. Eftirlitsverkefni verða að miklu leyti færð frá þeim til ríkisstofnana. Ráðherrarnir segja að ekki standi til að fækka störfum eða færa störf milli landshluta.
Matvælaeftirlit færist til Matvælastofnunar og eftirlit með mengun og hollustuháttum til Umhverfis- og orkustofnunar, verði áform ráðherranna að veruleika.
Á blaðamannafundi um málið í dag sögðu þau að um meiriháttar einföldun á reglum og framfylgd þeirra væri að ræða. Hanna Katrín kom inn á að bæði eftirlitið sjálft og aðgengi að upplýsingum væri mismunandi milli sveitarfélaga. Hún kallaði það „ekki bara óþægilegt heldur ólíðandi.“
Hún bætti við að ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hefði gert athugasemdir við matvælaeftirlit hérlendis á þeim forsendum að það stæðist ekki kröfur EES-samningsins.
Ekki markmið að færa störf milli landshluta
Ráðherrarnir sögðu að markmið breytinganna væri ekki að fækka eða færa störf milli landshluta. Tryggja ætti að störf haldist í heimabyggð því þekking á staðháttum skipti máli. Jóhann Páll sagði að nokkur kostnaður yrði við breytingarnar í byrjun en til lengri tíma ætti að nást fram sparnaður.
Hann kvaðst gera sér grein fyrir að breytingarnar yrðu ekki óumdeildar. Hins vegar væri tímabært að stokka upp í eftirlitskerfinu og taka ákvörðun um það frekar en fara pólitískt auðveldari leiðir með að skipa fleiri starfshópa með beiðni um fleiri skýrslur. Undanfarin ár hefði í slíkum plöggum ítrekað verið bent á veikleika núverandi kerfis.
Þau sögðust gera sér grein fyrir að heilbrigðisfulltrúarnir gegni fleiri hlutverkum. Hvernig þeim verði fyrirkomið verði skoðað nánar með sveitarfélögunum. Níu heilbrigðiseftirlitssvæði eru í landinu og er Austurland frá Vopnafirði til Hornafjarðar eitt svæði undir merkjum HAUST. Á síðasta ári störfuðu sex starfsmenn hjá HAUST í 5,2 stöðugildum.
Sveitarfélögin á móti ríkisleiðinni
Samkvæmt skýrslu greiningarhóps, sem undirbjó breytingarnar, voru skoðaðar fjórar sviðsmyndir. Í fyrsta lagi að heilbrigðiseftirlitssvæðunum yrði fækkað úr níu í fjögur, í öðru lagi að allt matvælaeftirlitið færðist til MAST, í þriðja lagi að núverandi stofnanir yrðu efldar en heilbrigðisnefndir lagðar niður og í fjórða lagi sú sem nú er að verða ofan á, að allt eftirlitið færist til ríkisstofnananna.
Mest vinna var lögð í að kanna síðastnefndu kostina tvo. Ríkisstofnanaleiðin þótti hafa þann kost að ábyrgðarskiptin væru skýrari með miðlægri stofnun. Áhætta er hins vegar talin í pólitískum ágreiningi um breytingarnar og hættu á að staðbundin þekking tapist, sé ekki gripið til mótvægisaðgerða. Dæmi um þær er að tryggja dreifðar starfsstöðvar, samráð við hagsmunaaðila og að störf á landsbyggðinni verði sérstaklega varin.
Áætluð útgjöld við þá leið sem á að fara eru áætluð 420-630 milljónir í einskiptiskostnað, mest í nýtt upplýsingakerfi og 140-160 milljónir í aukin útgjöld hjá þeim stofnunum sem taka við verkefnunum. Á móti er vænst sparnaðar upp á 90-190 milljónir á ári í minni biðtíma hjá fyrirtækjum eftir leyfum og styttri eftirlitsheimsóknum. Til viðbótar er vonast til að kerfið spari 90-140 milljónir á ári í vinnu við eftirlitið.
Fram kemur að sveitarfélögin hafi mótmælt þeirri leið sem til stendur að fara. Meginástæðan er sögð vera að þau vilji tryggja að störf sem verið hafa hjá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga haldist þar. Fast er kveðið að orði í sérstakri bókun Samtaka heilbrigðiseftirlitssvæða þar sem segir að stýrihópnum hafi mistekist hlutverk sitt að meta möguleikana á hlutlausan hátt og taumur einnar leiðar hafi verið dreginn þvert á umræður í hópnum. Samtökin áttu fulltrúa í hópnum en þar voru einnig þrír skrifstofustjórar úr ráðuneytum auk fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins.
Rúmt ár til stefnu
Tillögurnar hafa nú verið settar í samráðsgátt stjórnvalda. Þær verða væntanlega lagðar fram á Alþingi um miðjan nóvember en gert er ráð fyrir að breytingarnar taki gildi 1. janúar árið 2027.
Hugmyndirnar eru ekki nýjar af nálinni. Á haustþingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi árið 2023 voru í fyrsta sinn kynntar hugmyndir starfshóps á vegum þáverandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugs Þ. Þórðarsonar. Þær gengu út á að sameina heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna allt í eina stofnun.
Mynd: Stjórnarráðið/Sigurjón Ragnar
Fréttin uppfærð með kafla um það sem fram kom í skýrslu greiningarhópsins.