Leggja til að verkefni allra heilbrigðiseftirlita verði sameinuð í einni stofnun
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 29. sep 2023 15:41 • Uppfært 29. sep 2023 15:43
Starfshópur, sem skipaður var síðasta haust til að móta tillögur um fyrirkomulag eftirlits með hollustuháttum, mengunarvörnum og matvælum, leggur til að eftirlitinu verði komið fyrir í einni stofnun. Þau verkefni hafa til þessa verið undirstaðan í starfsemi heilbrigðiseftirlita sem rekin eru á vegum sveitarfélaga.
Ármann Kr. Ólafsson, fyrrum bæjarstjóri, í Kópavogi leiddi starfshópinn og kynnti vinnuna á haustþingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi sem sett var í Végarði í Fljótsdal í gær.
Hann sagði eftirlitið á þessum sviðum í dag á höndum Umhverfisstofnunar, Matvælastofnunar og síðan heilbrigðiseftirlitanna, sem eru níu talsins í landinu. Þetta hafi valdið því að stundum séu reglur túlkaðar á mismunandi hátt eftir hvaða eftirlitsaðili eigi í hlut. Þannig hafi heilbrigðiseftirlit Norðurlands og Reykjavíkur gert ólíkar kröfur til umsókna fyrir rekstraraðila sama hoppukastalans.
Fara þarf yfir löggjöfina líka
Starfshópurinn skoðaði þrjár útfærslur. Í fyrsta lagi að fækka heilbrigðisumdæmunum, í öðru lagi að sérstök stofnun verði með matvælaeftirlitið og í þriðja lagi að allt eftirlitið verði sett í eina stofnun. Síðastnefndi kosturinn varð ofan á.
Ármann sagði að þetta kallaði á miklar breytingar, bæði á stofnunum sem slíkum en líka löggjöf og úthlutun fjárheimilda.
Sveitarfélögin fjögur á Austurlandi, ásamt Hornafirði, hafa staðið saman að rekstri Heilbrigðiseftirlits Austurlands. Á vegum þeirrar nefndar sem er yfir eftirlitinu hefur oftar en einu sinni verið kallað eftir að eftirlitinu verði falin fleiri verkefni.
Lofað að störfin hverfi ekki af landsbyggðinni
Ármann sagði að frumforsenda breytinganna væri að störf yrðu ekki færð af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins heldur skyldu þau auglýst þar sem verkefnin væru. Margt af þeirri starfsemi sem fylgjast þyrfti með væri út um landið. Hann nefndi sérstaklega fiskeldi sem hefur vaxið verulega á Vestfjörðum og Austfjörðum og að á þeim svæðum þyrfti að efla það eftirlit.
Ármann kvaðst gera sér grein fyrir að breytingarnar gætu verið viðkvæmar og kallaði eftir samstarfi við sveitarfélögin um þær. „Ef það verður stríð um þetta þá er betur heima setið en af stað farið,“ sagði Ármann en bætti við að öll nánari útfærsla breytinganna væri enn eftir.
Alþjóðlegar kröfur kalla á breytingar
Starfshópurinn var skipaður af umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðuneytinu í samstarfi við matvælaráðuneytið. Ármann sagði að breytingar yrðu að verða á núverandi fyrirkomulagi í eftirliti með matvælum í ljósi löggjafar Evrópusambandsins.
Samhliða myndist tækifæri til að skoða íslenskar reglur. Hann sagði þær stundum ganga of langt, svo sem kröfur um að mála allt sem er galvaníserað á leikvöllum. Íslenskt veðurfar verði síðan til þess að málningin flagni af. Þá nefndi Ármann að fara þyrfti yfir heimildir sveitarfélaga til að hafa áhrif á sitt nærumhverfi, til dæmis að taka á slæmri umgengni innan einkalóða, þar sem þau hafa takmörkuð úrræði í dag.