Fækka um tvær ferðir á viku

Air Iceland Connect hefur ákveðið að fækka ferðum milli Reykjavíkur og Egilsstaða um tvær frá nóvember fram í febrúar á næsta ári. Farþegum hefur fækkað síðustu misseri en ekki eru fyrirhugaðar frekari breytingar á þjónustunni að sinni.

Á þessu tímabili verða ekki miðdegisvélar á þriðjudögum og miðvikudögum. Flugfélagið mun því fara 18 ferðir á viku frá Egilsstöðum í stað 20 síðasta vetur. Árni Gunnarsson, forstjóri félagsins, segir ástæðuna fækkun farþega í innanlandsflugi og farþegar séu fæstir þessa daga.

Í svari við fyrirspurn Austurfréttar segir hann að fækkað hafi nokkuð jafnt í öllum farþegahópum, hvort sem um er að ræða erlenda ferðamenn, viðskiptafarþega eða þá sem fara í einkaerindum.

Um 85 þúsund farþegar flugu með félaginu til og frá Egilsstöðum í fyrra. Árni segir skýra tengingu milli fjölda farþega og hagvaxtar. Þannig hafi farþegarnir orðið 130 þúsund á meðan stóriðjuframkvæmdum stóð á Austurlandi en síðan hafi dregið saman.

Meðan hagvöxtur sé neikvæður á Austurlandi sé ekki hægt að búast við öðru en farþegum fækki. Þetta breytist þó þegar hagkerfið styrkist. „Hagsveiflur eru yfirleitt sveiflur í eðli sínu og við höfum trú á samfélaginu á Austurlandi og dugnað þess til að keyra áfram atvinnulífið og snúa við þessari þróun og munum að sjálfsögðu bregðast við með auknu framboði sæta um leið og við sjáum vísbendingar til viðsnúnings í kortunum,“ segir Árni.

Flugfélagið hefur ákveðið að selja, eða leigja í langtímaverkefni, tvær af sex vélum sínum. Árni segir að fækkunin eigi ekki að ráða sætaframboðinu til Egilsstaða. Það geri eftirspurnin og hún hafi farið minnkandi. Svigrúm sé til að bæta við sætum með þeim vélum sem eftir eru.

Með færri vélum minnkar svigrúm til að bregðast við vegna viðhalds. Árni bendir þó á að veðurfar sé það sem hafi mest áhrif á breytingar á flugáætlun.

Þrátt fyrir fækkun farþega og hagræðingu flugfélagsins eru að sögn Árna ekki fleiri breytingar fyrirhugaðar á þjónustu við Austurfirðinga.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.