Eyjólfur Þorkelsson nýr yfirlæknir í Fjarðabyggð

Eyjólfur Þorkelsson, sérfræðingur í heimilislækningum, hefur verið ráðinn yfirlæknir hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) í Fjarðabyggð. Hann segir markmiðið að byggja upp heilbrigðisþjónustuna þar til framtíðar.

„Mér finnst þetta ofboðslega spennandi starf. Því fylgja fjölmargar áskoranir en líka vel, menntað, samviskusamt og gott samstarfsfólk. Því sé ég ekki ástæðu til annars en bjartsýni að því gefnu að við fáum samfélagið vel í lið með okkur,“ segir Eyjólfur.

Hann er alinn upp á Seyðisfirði og útskrifaðist sem sérfræðingur í heimilislækningum að loknu námi innan HSA árið 2015 en hefur búið með fjölskyldu sinni í Svíþjóð undanfarin átta ár. Kona hans er Lilja Rut Arnardóttir frá Stöðvarfirði, en hún er einnig sérfræðingur í heimilislækningum.

Yfirlæknir ber ábyrgð á læknisfræðilegum málefnum sem koma upp innan viðkomandi heilsugæslu en er líka málsvari hennar og starfsfólks í samskiptum út á við auk þess að bera ábyrgð á læknamönnun hennar og leiða þróun hennar og skipulag.

Þrír fastráðnir læknar


Eyjólfur tók við yfirlæknisstarfinu 1. apríl síðastliðinn en hafði áður verið læknir við heilsugæsluna. Hann er einn þriggja fastráðinna lækna heilsugæslunnar í Fjarðabyggð en með honum eru þeir Kjartan Bragi Valgeirsson og Már Egilsson. Sá síðastnefndi býr að staðaldri í Svíþjóð og sinnir einkum fjarheilbrigðisþjónustu en hann er fyrrum yfirlæknir í Fjarðabyggð. Til viðbótar eru að jafnaði 1-2 læknar tímabundið hjá heilsugæslunni.

Heilsugæslan í Fjarðabyggð nær yfir Eskifjörð, Reyðarfjörð, Fáskrúðsfjörð og Stöðvarfjörð. Læknar Umdæmissjúkrahússins sinna þjónustu í Neskaupstað en Breiðdalur fellur undir Djúpavog.

Aðspurður um nauðsynlegan fjölda lækna á slíku svæði svarar Eyjólfur að engar skilgreiningar séu til hérlendis um fjölda íbúa á bakvið hvern lækni. Í Svíþjóð sé miðað við 1100 íbúa á hvern lækni í þéttbýli en færri í dreifbýli. Út frá þeim viðmiðum séu forsendur fyrir fjórum læknum í Fjarðabyggð en staðreyndin sé sú að læknar séu ekki á hverju strái.

Stækkun heilsugæslustöðvarinnar á Reyðarfirði undirbúin


Aðalbækistöð heilsugæslunnar í Fjarðabyggð er á Reyðarfirði að Búðareyri 8. Umhverfis- og skipulagsnefnd Fjarðabyggðar hefur nýverið samþykkt umsókn HSA um óverulega stækkun þar. Þá hefur verið samþykkt að úthluta HSA lóðinni við hliðina, Búðareyri 10, þegar vinnu við gerð deiliskipulags er lokið.

„Nútíma heilsugæsla, sú þjónusta sem fólk á rétt á að vænta, byggir annars vegar á samfellu, hins vegar teymisvinnu. Skipulag heilsugæslunnar í Fjarðabyggð, með dreifðu húsnæði og þar af leiðandi dreifðum mannskap, svarar ekki kalli tímans og hefur ekki gert það lengi.

Til að veita þá þjónustu sem fólk væntir og mögulega bæta í, þarf að sameina starfsemina undir einu þaki. Til þess þarf að stækka stöðina á Reyðarfirði. Það er hægt að gera endurbætur á núverandi húsnæði en þær duga ekki til. Það er búið að sækja um lóðina en þá er eftir að byggja húsnæðið. Þótt það sé ekki tímasett enn vonum við að þess verði ekki of langt að vænta.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.